Innlent

Ekki merkt hvaðan grænmetið kemur

Í grænum kössum Sölufélags Garðyrkjumanna er stundum erlent grænmeti í lausu.fréttablaðið/hag
Í grænum kössum Sölufélags Garðyrkjumanna er stundum erlent grænmeti í lausu.fréttablaðið/hag
"Í sumum verslunum eru haugar af erlendu grænmeti í lausu í grænum plastkössum merktum okkur. Þetta er sárt að sjá þegar nóg er til af íslensku grænmeti. Þegar ekki kemur fram að um erlent grænmeti sé að ræða telur neytandinn sig væntanlega að vera að kaupa íslenska tómata vegna kassanna sem þeir eru í. Það eru þar að auki skýr lög um að neytandinn eigi að vita hvaðan varan kemur," segir Gunnlaugur Karlsson, framkvæmdastjóri Sölufélags garðyrkjumanna.

Viðbrögð fulltrúa verslana við athugasemdum Sölufélagsins hafa verið á þá leið að um mannleg mistök sé að ræða. "Þetta gerist hins vegar aftur og aftur. Maður fer þá að velta fyrir sér hvort þetta sé gáleysi eða ásetningur," tekur Gunnlaugur fram.

Kassarnir með erlenda grænmetinu í eru meðal þeirra tíu þúsund plastkassa sem ekki hefur verið skilað til sölufélagsins frá því í fyrrasumar. "Afföllin á kössum sem grænmeti er flutt í til verslana hafa verið mun meiri síðastliðin ár en árin þrjú þar á undan. Flutningafyrirtækin eiga að koma með kassana til baka en einhvern veginn kvarnast úr þessu. Núna erum við í stökustu vandræðum. Uppskeran er snemma í ár og við fáum ekki nýja kassa frá Englandi fyrr en eftir mánaðamótin. Maður skilur ekki hvers vegna margir kassar lenda í bílskúrum hjá neytendum og á vörulagerum svo dæmi séu nefnd."

Hver kassi kostar 1.200 til 1.500 krónur. Tap Sölufélags garðyrkjumanna er því 12 til 15 milljónir króna á ári vegna affallanna. Alls er sölufélagið með sextíu til sjötíu þúsund kassa í umferð.-ibs




Fleiri fréttir

Sjá meira


×