Innlent

Segja starfsöryggi sínu ógnað

Reykjavíkurborg hefur nú hafið innritun á börnum fæddum í janúar 2011 í leikskóla.
Reykjavíkurborg hefur nú hafið innritun á börnum fæddum í janúar 2011 í leikskóla. fréttablaðið/hörður
Reykjavíkurborg hefur nú ákveðið að hefja innritun barna sem eru fædd í janúar 2011 í leikskóla borgarinnar.

„Þetta gæti sett strik í reikninginn hjá þeim dagforeldrum sem eru búnir að fylla hjá sér í öll pláss og vísa börnum annað. Sumir gætu endað með tvö, þrjú börn í staðinn fyrir fjögur, fimm,“ segir Bergljót Snorradóttir, einn forsvarsmanna Barnsins, samtaka dagforeldra í Reykjavík.

Fyrir rúmri viku birtust fréttir af því að Reykjavíkurborg hygðist ekki innrita börn fædd árið 2011 í leikskóla á þessu ári.

Þessi viðsnúningur kemur sér afar illa fyrir dagforeldra.

„Það er komið fram við okkur eins og þetta sé hobbý hjá fólki. Það vantar algjörlega virðingu fyrir starfsframlagi okkar,“ segir Bergljót og bendir á að fólk í öðrum stéttum myndi varla sætta sig við álíka viðsnúning í vinnu.

Bergljót segir tímasetninguna á tilkynningunni afleita. Flestir dagforeldrar taki sér sumarfrí í júlí. Það sé fyrirséð að mörgum dagforeldrum verði kippt úr fríinu með símtölum varðandi uppsagnir plássa.

„Það er komin ofboðsleg kergja í dagforeldra og það hefur komið til tals að segja upp samstarfi við borgina. Núna verður farið í að skoða það mál alvarlega. Það er ekki hægt að vinna undir þessu. Starfsöryggi okkar er ekkert.“ - ktg
Fleiri fréttir

Sjá meira


×