Innlent

Bók Helga um Fischer nýtur vinsælda

Helgi Ólafsson er ánægður með viðtökurnar við bókinni Bobby Fischer Comes Home.
Helgi Ólafsson er ánægður með viðtökurnar við bókinni Bobby Fischer Comes Home. fréttablaðið/pjetur
„Ég er nokkuð ánægður með þetta,“ segir Helgi Ólafsson, stórmeistari í skák.

Bók hans Bobby Fischer Comes Home situr í efsta sæti á vinsældarlista hins öfluga forlags New in Chess, sem gefur bókina út. Hún fjallar um heimsmeistarann sáluga Bobby Fischer, og þar er megináhersla lögð á síðustu ár hans á Íslandi.

„Ég umgekkst hann mjög mikið, eða fram á vorið 2007. Þá má segja að hafi kastast í kekki á milli okkar. Hann veiktist um haustið og var á spítala og var síðan farinn í ársbyrjun 2008,“ segir Helgi, sem var fenginn til að skrifa bókina vegna þess að hann þekkti skákferil Fischers manna best hér á landi. Helgi fylgdist með heimsmeistaraeinvígi Fischers og Spasskís í Laugardalshöll 1972 og umgekkst Fischer mikið eftir að hann flutti til Íslands.

„Það kannast margir við að eignast átrúnaðargoð í æsku og kynnast þeim síðar. Það má segja að maður sé að bera þetta saman,“ segir hann. „Maðurinn sem kom hingað 2005 var ekki sami maður í mínum huga og 1972. Ég myndi ekki segja að hann hafi valdið mér vonbrigðum. Þetta var bara skeið í hans lífi sem var mjög erfitt.“

Hann segir bók sem þessa mikilvæga heimild. „Fischer tengdist skáksögu Íslendinga og Íslandssögunni mikið. Það er nauðsynlegt að það sé eitthvað skráð um þetta af þeim sem voru að umgangast hann.“

Spurður hvort bókin komi út á íslensku segir Helgi að það komi til greina ef einhver bókaforlög sýni henni áhuga. -fb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×