Innlent

Tveir þriðju umsækjenda fá ekki sumarstarf hjá borginni

Reykjavíkurborg hefur synjað nálægt tveimur þriðju umsækjenda um sumar- og afleysingastörf síðan sumarið 2009. Fjöldi umsækjenda nær tvöfaldaðist eftir efnahagshrunið, en fjöldi starfa hefur ekki breyst mikið, að undanskildu sumrinu í fyrra þegar tæplega tvö þúsund störf voru í boði. Í ár eru þau tæplega 1.400 og umsækjendur rúm fjögur þúsund.

Gerður Dýrfjörð, deildarstjóri atvinnumála hjá Hinu húsinu, segir þróunina áhyggjuefni. „Fólk hefur vissulega áhyggjur. Við fáum fleiri símtöl á dag frá fólki sem er að spyrjast fyrir um þessi mál," segir hún. Flestir umsækjendur eru nemendur á aldrinum 17 til 20 ára og segir Gerður foreldra yngra fólks, sem ekki hefur fengið vinnu, uggandi yfir stöðunni.

„Þetta er áhyggjuefni, en á móti kemur að borgin beitir sér mikið í málefnum þeirra sem hafa verið án vinnu til lengri tíma," segir hún.

Laufey Gunnlaugsdóttir, deildarstjóri hjá Vinnumálastofnun, segir að almennt sé erfiðara fyrir ungt fólk að fá vinnu. „Ungmennin hafa yfirleitt minni starfsreynslu og minni menntun," segir hún, en nemendur á milli anna hafa ekki rétt á atvinnuleysisbótum. „Við tókum áður á móti námsmönnum á sumrin og áttum von á þúsundum manna, en raunin var sú að flestir fengu vinnu að lokum. En auðvitað er alltaf einhver hópur sem ekki fær vinnu."

Heildarfjöldi starfsumsókna er þó talsvert meiri en fjöldi umsækjenda, því flestir sækja um fleiri störf en eitt. Flestar stöður eru í boði hjá umhverfissviði borgarinnar, eða um 450. Velferðarsvið og ÍTR eru næststærstu flokkarnir.

Alls eru 1.800 störf í boði hjá Vinnuskólanum fyrir nemendur í 9. og 10. bekk grunnskóla og verða allir ráðnir til borgarinnar sem sækja um.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×