Innlent

Bólusetning gegn svínaflensu ótengd fósturláti

Engin tengsl fundust á milli bólusetningar og fósturláts. fréttablaðið/vilhelm
Engin tengsl fundust á milli bólusetningar og fósturláts. fréttablaðið/vilhelm
Bólusetning þungaðra kvenna með lyfinu Pandemrix gegn svínainflúensu veldur ekki fósturláti, er niðurstaða danskrar rannsóknar. Rannsóknarniðurstöðurnar voru birtar í hinu virta tímariti British Medical Journal (BMJ) þann 2. maí. Þetta kemur fram í frétt á vef landlæknis.

Talsverðar umræður hafa verið um alvarlegar aukaverkanir af völdum Pandemrix-bólusetningar gegn svínainflúensu sem fram fór á árunum 2009/2010. Mest áberandi hafa umræðurnar verið um þátt bólusetningarinnar í drómasýki (narcolepsy) hjá ungum einstaklingum. Í Finnlandi, Svíþjóð, Noregi og Írlandi hefur verið sýnt fram á tengsl bólusetningarinnar við drómasýki og er áhættan í þessum löndum talin hafa verið um 3-6 tilfelli af hverjum 100.000 bólusettum. Í öðrum löndum og þar á meðal Íslandi hefur ekki verið hægt að sýna fram á þessa áhættu.

Sóttvarnalæknir vill minna á í þessu samhengi að svínainflúensan 2009/2010 var ekki léttvægur sjúkdómur. Um 200 einstaklingar voru lagðir inn á sjúkrahús, um 20 þeirra lágu alvarlega veikir á gjörgæsludeild til langs tíma og að minnsta kosti tveir létust. Að mati sóttvarnalæknis er fullvíst að útbreidd bólusetning á Íslandi gegn svínainflúensunni hafi komið í veg fyrir alvarleg veikindi hjá fjölda Íslendinga. - shá




Fleiri fréttir

Sjá meira


×