Innlent

Uppteknir foreldrar vanrækja börn sín

Börn í vanda Dr. May Olofsson frá Danmörku og dr. Kari Killén frá Noregi eru aðalfyrirlesarar á ráðstefnunni Foreldrar í vanda – börn í vanda sem haldin er í dag og á morgun. fréttablaðið/vilhelm
Börn í vanda Dr. May Olofsson frá Danmörku og dr. Kari Killén frá Noregi eru aðalfyrirlesarar á ráðstefnunni Foreldrar í vanda – börn í vanda sem haldin er í dag og á morgun. fréttablaðið/vilhelm
Foreldrar eru oft svo uppteknir af sjálfum sér og eigin vandamálum að þeir vanrækja samskipti við börn sín. Börn geta til dæmis búið við efnahagslegt öryggi en ekki fengið þau tilfinningalegu tengsl sem þau þurfa. Tilfinningaleg vanræksla getur leitt til þess að börnin þroskast seinna á ýmsum sviðum en önnur börn. Afleiðingarnar geta orðið alvarlegar og keðjuverkunin óheillavænleg.

Þetta er meðal þess sem dr. Kari Killén mun fjalla um á námsstefnunni Foreldrar í vanda – börn í vanda á vegum Þerapeiu hf., Miðstöðvar foreldra og barna og Barnaverndarstofu sem haldin verður í dag og á morgun á Þjóðminjasafninu.

Að sögn Killén, sem er yfirmaður rannsóknarstarfs stofnunarinnar NOVA (Norsk institutt for forskning om oppvekst, velferd og aldring) í Ósló, verður vanrækt barn, hvernig svo sem vanrækslan er, erfitt barn, eins og hún orðar það. „En það dugar ekki að segja foreldrunum hvað þeir eiga að gera. Það þarf að hvetja foreldra og hjálpa þeim að reyna að skilja barnið sitt. Ef um alvarleg tilfelli vanrækslu er að ræða er auðvitað skylda yfirvalda að grípa inn í.“

Kari Killén getur þess að þekkingin á málefninu sé mikil. Henni sé hins vegar ekki beitt eins og skyldi. „Það er stórt gap þar á milli. Það er nauðsyn á samvinnu þeirra sem starfa að þessum málum,“ segir hún.

Á námsstefnunni mun dr. May Olofsson, yfirlæknir fjölskylduþjónustu Hvidovre sjúkrahússins og Ríkisspítalans í Kaupmannahöfn, meðal annars fjalla um hættuna á skaðlegum áhrifum áfengisneyslu verðandi mæðra á fóstrið, einkum á þroska heilans og miðtaugakerfisins.

Olofsson segir að miðað við hversu mikil áfengisneysla danskra kvenna er eigi 2.200 börn á hættu að fæðast alvarlega sködduð, líkamlega og andlega, á hverju ári. „Skilaboð heilbrigðisyfirvalda um að konur eigi ekki að drekka á meðgöngu eru skýr. Tiltölulega margir læknar og ljósmæður fylgja hins vegar ekki tilmælum yfirvalda. Þekking þeirra á hættunni er ekki nægileg. Konur hafa greint frá því að læknar hafi sagt þeim að drykkja á meðgöngu sé í lagi.“

Olofsson tekur það fram að hættan á líkamlegri og andlegri fötlun barns vegna drykkju móður á meðgöngu sé fullsönnuð. Þetta sé skaði sem hægt sé að koma í veg fyrir.ibs@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×