Innlent

Vinnuveitendur komi til móts við barnafjölskyldur

Starfsdögum leikskólakennara hefur þegar fjölgað úr þremur í fimm síðan 2007. Þeir eru ætlaðir til undirbúnings og skipulags skólastarfsins.fréttablaðið/vilhelm
Starfsdögum leikskólakennara hefur þegar fjölgað úr þremur í fimm síðan 2007. Þeir eru ætlaðir til undirbúnings og skipulags skólastarfsins.fréttablaðið/vilhelm
Reykjavíkurborg vill uppbyggilegt samstarf við atvinnulífið um hvernig best verður komið til móts við þarfir barnafólks. Þetta segir Oddný Sturludóttir, formaður skóla- og frístundaráðs. Samtök atvinnulífsins (SA) hafa gagnrýnt fjölgun starfsdaga á leikskólum borgarinnar og segja hana bitna á foreldrum og vinnustöðum þeirra.

Oddný segir mikilvægt að muna að leikskólinn sé fyrst og síðast menntastofnun, en ekki bara þjónustustofnun. Mikið þróunarstarf hafi átt sér stað innan leikskólans og það séu hagsmunir allra; barna, foreldra og atvinnulífsins.

Ingibjörg Kristleifsdóttir, formaður Félags stjórnenda leikskóla, segir að fagstéttin fagni auknu svigrúmi til innleiðingar aðalnámskrár og annarrar undirbúningsvinnu sem þurfi að eiga sér stað í leikskólum. Hún er ósátt við málflutning SA.

„Það sem mér finnst sorglegast við hann er að mér finnst svo lítið gert úr foreldrum með það að þeir snúist öndverðir við þessu. Foreldrar gera kröfur um gæði í leikskólastarfi. Þetta snýst um menntatilboð fyrir börn, ekki þjónustu við atvinnulífið.“

Rósa Steingrímsdóttir er formaður Barnanna okkar, samtaka foreldrafélaga leikskóla og er áheyrnarfulltrúi í skóla- og frístundaráði. Hún segir það vera til góða fyrir leikskólastarf að starfsmenn fái aukinn fundartíma.

„Hins vegar hefði mátt fara aðra leið og borga starfsmönnum yfirvinnu. Það kemur sér illa fyrir marga foreldra að þurfa annað hvort að taka sér launalaust frí frá vinnu eða að dekka starfsdaga með sumarfríi. Ég styð aukinn fundartíma leikskólastarfsfólks, en set spurningarmerki við hvort rétt sé að velta kostnaðinum alfarið yfir á foreldra.“

Ingibjörg segir að starfsmannafundir utan vinnutíma hafi verið skornir niður í niðurskurðinum. Væri meira fé veitt í málaflokkinn væri hægt að greiða yfirvinnu fyrir fundi utan vinnutíma. Hún kallar hins vegar eftir varanlegri lausn á starfsumhverfinu.

„Við verðum að skoða hvernig þessu verður best komið fyrir. Börnin verða að fá það besta sem í boði er, en það er ekki hægt að bjóða upp á það nema að skipuleggja það.“

Oddný bendir á að mörg sveitarfélög hafi neyðst til að minnka yfirvinnu starfsmanna en allir hljóti að sjá að ekki sé hægt að jafna saman starfsmannafundi eftir langan vinnudag, eða heilum starfsdegi sem notaður sé í þróun starfsins.

kolbeinn@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×