Innlent

Sumarkomu fagnað

Dagskrá verður í Frostaskjóli og á fjölda annarra staða í dag.
Dagskrá verður í Frostaskjóli og á fjölda annarra staða í dag. fréttablaðið/daníel
Venju samkvæmt verður blásið til hátíðarhalda í dag í tilefni sumardagsins fyrsta. Í hverfum höfuðborgarsvæðisins verður skemmtidagskrá með hefðbundnu sniði en auk þess er fjöldi annarra viðburða boðaður á víð og dreif um borgina.

Skemmtidagskrá verður með hefðbundnu sniði í hverfum höfuðborgarsvæðisins í dag á sumardaginn fyrsta. Víðast hvar verða skrúðgöngur farnar í tilefni dagsins og boðið upp á veitingar. Þá verða leiktæki og skemmtiatriði fyrir börnin.

Á korti sem fylgir hér að ofan má sjá hvar hátíðarhöldin á höfuðborgarsvæðinu verða í dag. Nánari upplýsingar um tímasetningar, skemmtidagskrár og fyrirhugaðar skrúðgöngur má nálgast hjá sveitarfélögum og þjónustumiðstöðvum í hverfum Reykjavíkur.

Dagskráin í dag er fjölbreyttari en oft áður þar sem Barnamenningarhátíð í Reykjavík er haldin í annað skipti þessa dagana en henni fylgja viðburðir um alla borg. Dagskrá hátíðarinnar er að finna á vefsíðu hennar en nokkrir helstu viðburðir dagsins verða taldir upp hér að neðan.

Í Þjóðminjasafninu verður dagskrá helguð börnum fram eftir degi þar sem víkingafélagið Rimmugýgur mun meðal annars bregða á leik auk þess sem Brúðuleikhúsið mætir á svæðið. Í Listasafni Íslands munu nemendur við listkennsludeild Listaháskólans bjóða upp á fjölbreyttar listasmiðjur fyrir fjölskyldur frá kl. 11 til 17. Þá verður fjölbreytt dagskrá í Iðnó fram eftir degi þar sem áhugasömum verður meðal annars kennt að gera töfrabrögð og origami pappírsbrot.

Í Tjarnarbíói mun Kammersveit Reykjavíkur leika tvö ný tónverk fyrir forvitna grunnskólakrakka og þá mun Möguleikhúsið frumsýna Ástarsögu úr fjöllunum en sýningin hefst kl. 16.30. Í Þjóðleikhúsinu verður einnig sett upp leiksýning, fjölskyldusýningin Skýjaborg sem hefst kl. 15.30.

Loks mun Hestamannafélagið Fákur bjóða til opins dags á félagssvæði sínu þar sem borgarbúum er boðið að kynna sér starfsemi félagsins. Þar munu Reiðskóli Reykjavíkur og Faxaból auk þess bjóða börnum á hestbak þar sem teymt verður undir þeim.

Meðal annarra staða þar sem staðið verður fyrir skipulagðri dagskrá í dag eru Fjölskyldu- og húsdýragarðurinn, Árbæjarsafn, Háskóli Íslands, Klambratún, Ráðhús Reykjavíkur og Nýlistasafnið.

Upptalningin hér er ekki tæmandi listi yfir viðburði í höfuðborginni í dag þar sem fjöldi annarra stofnana og félaga mun standa fyrir viðburðum.

magnusl@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×