Innlent

Akureyrarlögreglan ræður ekki við álagið

Lögreglan á Akureyri hefur vart undan við að sinna málum sem koma upp í bænum sökum aukins álags og alvarlegri glæpa undanfarin ár.
Lögreglan á Akureyri hefur vart undan við að sinna málum sem koma upp í bænum sökum aukins álags og alvarlegri glæpa undanfarin ár.
Fjögur vopnuð rán hafa verið framin á Akureyri á þessu ári. Fíkniefnaneysla hefur aukist mikið. Lögreglan á erfitt með að mæta álaginu sökum manneklu. Bæjarstjóri vill kalla eftir samanburðartölum um þróun glæpa á landinu öllu.

Fjögur vopnuð rán hafa verið framin á Akureyri það sem af er ári. Ekkert vopnað rán var framið í bænum í fyrra. Tvö af ránunum í ár voru framin af fíkniefnaneytendum til að fjármagna skuldir og tvö voru framin af sama einstaklingnum; ungri konu sem á við andlega vanheilsu að stríða. „Vonandi er þetta bylgja sem mun ekki festa sig í sessi," segir Gunnar Jóhannsson, yfirmaður rannsóknardeildar lögreglunnar á Akureyri.

Lögreglan í bænum hefur verið að fást við mun grófari og alvarlegri glæpi á undanförnum árum. Gunnar segir merkjanlegan mun á eðli glæpanna hafa komið í ljós á árunum 2005 og 2006. Fíkniefnaneysla hafi færst í aukana og langflest afbrot séu tengd fíkniefnum. Aðallega er lagt hald á kannabis og amfetamín. Þá er ræktun kannabisplantna einnig orðin mun algengari.

Gunnar segir mannafla lögreglunnar ekki í samræmi við það aukna álag sem stéttin sé að fást við. „Við erum komnir niður fyrir þolmörk í þeim efnum," segir hann.

Nokkur mjög alvarleg líkamsárásarmál hafa komið upp á Akureyri á undanförnum árum. Má þar nefna atvik sem þar sem fingur var klipptur af manni með greinaklippu við handrukkun árið 2007, hnífsstunguárás árið 2009 og frelsissvipting og alvarleg líkamsárás í Vaðlaheiði árið 2006.

Lögreglan fylgist vel með mögulegri þróun skipulagðra glæpasamtaka í bænum í samstarfi við lögregluna á höfuðborgarsvæðinu. Gunnar segir þó lítið benda til þess að þau séu að festa sig í sessi.

„Þó eru vissir einstaklingar að reyna að tengja sig við þessa hópa. til að sýnast stærri en aðrir," segir hann.

Eiríkur Björn Björgvinsson, bæjarstjóri Akureyrar, hefur áhyggjur af þróuninni í bænum sem og á landinu öllu. Hann vill láta kalla eftir tölulegum upplýsingum frá ríkinu til að sjá hvort Akureyri standi verr að vígi en sambærileg sveitarfélög í landinu hvað þessa þróun varðar. Þá sé það áhyggjuefni ef lögreglan hafi ekki þann fjárstuðning sem þarf til að takast á við þessa þróun.

Almannaheillanefnd hefur verið starfandi í bænum frá árinu 2008 og er hennar hlutverk meðal annars að vinna að fræðslu og forvörnum er varða afbrot.

sunna@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×