Innlent

Geitungar rumska til að pissa

Þessi fiðrildi eru algeng á Íslandi að sumri og vori, en sjaldséð jafnsnemma og nú.
Þessi fiðrildi eru algeng á Íslandi að sumri og vori, en sjaldséð jafnsnemma og nú. Mynd/náttúrustofnun
Það að garðyglur, flökkufiðrildi frá meginlandi Evrópu, séu óvenjusnemma hér á ferðinni þetta árið þýðir ekki að nú vori fyrr en alla jafna. Þetta er mat Erlings Ólafssonar, skordýrafræðings.

Fréttir bárust af því í gær að sést hefði til geitunga komnum á stjá en Erling segir það alvanalegt á þessum árstíma.

„Ég hef heyrt af svona þremur eða fjórum núna,“ segir Erling. „Þetta byrjar alltaf á einum og einum í lok mars og byrjun apríl. Svo kemur ekki gusa fyrr en um miðjan maí. En það er alltaf einhver sem rumskar og þarf að fara fram úr að pissa.“

Sést hefur til garðyglanna í umtalsverðum mæli frá því í lok mars, sem þykir mjög óvenjulegt, enda koma þær yfirleitt ekki fyrr en á haustin og í minna mæli í apríllok og byrjun maí. Nú hefur hins vegar sést til garðyglu allt frá Reykjavík til Hafnar í Hornafirði.

Erling segir að þetta megi líklega skýra með tíðafari í Evrópu, ekki á Íslandi. Fiðrildin hafi hrakist suður fyrir Færeyjar og ekki komið þar við á leið sinni til Íslands. - sh




Fleiri fréttir

Sjá meira


×