Innlent

Eldur breiddist út á skammri stund

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Barist við eldinn Blái turninn við Háaleitisbraut er ónýtur eftir bruna í gær.
Barist við eldinn Blái turninn við Háaleitisbraut er ónýtur eftir bruna í gær. Fréttablaðið/Pjetur
Enginn meiddist þegar söluskálinn Blái Turninn við Háaleitisbraut í Reykjavík varð eldi að bráð rétt fyrir klukkan ellefu í gærmorgun.

Samkvæmt upplýsingum frá slökkviliði náði starfskona söluskálans að forða sér út eftir að eldur, sem talinn er hafa komið upp í djúpsteikingarpotti, breiddist hratt út og læsti sig í loft og svo klæðningu í þaki söluskálans.

Húsið er talið ónýtt eftir brunann en úr varð töluverður eldur og sást reykurinn frá brunanum langt að.

Allnokkur viðbúnaður var vegna brunans, en um skeið lokaði lögregla öllum götum í nágrenni söluskálans.

Þá voru á staðnum að minnsta kosti þrír slökkviliðsbílar og nokkrir sjúkrabílar. Aðgerðum á vettvangi stjórnaði Stefán Eiríksson, lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins.

Slökkvistarf stóð í um þrjár klukkustundir en lauk fljótlega eftir að grafa, sem kölluð hafði verið á vettvang, náði að rjúfa þak söluskálans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×