Innlent

Annar höfuðpaurinn játaði sök

Mennirnir fölsuðu ógrynni skjala til að komast yfir féð.
Mennirnir fölsuðu ógrynni skjala til að komast yfir féð. Fréttablaðið/vilhelm
Annar höfuðpauranna í stórfelldu og flóknu fjársvikamáli sem beindist að tveimur eignarhaldsfélögum og Íbúðalánasjóði játaði sök við þingfestingu þess í gær. Hinn tók sér frest til að taka afstöðu til ákærunnar.

Mennirnir fölsuðu ógrynni skjala sumarið 2009 til að taka yfir stjórn tveggja eignarhaldsfélaga, taka tólf milljónir út af reikningi annars þeirra og selja fasteignir undan þeim báðum. Þeir fölsuðu einnig skjöl til að taka lán hjá Íbúðalánasjóði til að kaupa eignirnar tvær í nafni fólks sem ekki tengdist málinu. Lánunum, samtals 40 milljónum króna, stungu þeir undan.

Tveir vitorðsmenn þeirra, sem tóku við peningunum inn á reikninga sína og eru ákærðir fyrir hylmingu, mættu ekki fyrir dóminn.

Ákæruvaldið gerir kröfu um að Harley Davidson-mótorhjól verði gert upptækt af einum sakborninganna. Talið er að það hafi verið keypt fyrir ávinning af brotinu.

Engar bótakröfur eru gerðar í ákærunni. Gunnhildur Gunnarsdóttir, lögfræðingur hjá Íbúðalánasjóði, segist hafa átt von á því að ákæruvaldið veitti sjóðnum kost á að koma að bótakröfu vegna milljónanna fjörutíu og kveðst munu freista þess að koma henni að þótt búið sé að þingfesta ákæru.- sh




Fleiri fréttir

Sjá meira


×