Innlent

Efast um skilning Seðlabankans

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Þorsteinn Már Baldvinsson Forstjóri Samherja lýsir "fullri ábyrgð“ af húsleit á Seðlabankann.FRéttablaðið/gva
Þorsteinn Már Baldvinsson Forstjóri Samherja lýsir "fullri ábyrgð“ af húsleit á Seðlabankann.FRéttablaðið/gva
„Hjá Samherja hefur í einu og öllu verið farið að lögum hvort sem það varðar gjaldeyrisviðskipti eða önnur málefni,“ segir í yfirlýsingu Þorsteins Más Baldvinssonar, forstjóra Samherja, vegna húsleitar hjá fyrirtækinu á vegum Seðlabankans.

Þorsteinn segir aðgerðir Seðlabankans tilefnislausar og hljóta að vera byggðar á röngum upplýsingum eða öðrum ástæðum sem Samherja sé ekki kunnugt um hverjar eru.

Gjaldeyrisdeild Seðlabankas grunar Samherja um brot á gjaldeyrislögum en Þorsteinn segist engar skýringar hafa fengið.

„Samherji hefur lagt sig fram um að uppfylla allar kröfur Seðlabankans um gjaldeyrisviðskipti,“ segir forstjórinn sem kveður bankann virðast eiga í erfiðleikum með að átta sig á alþjóðlegri starfsemi Samherja. „Kann það að hluta til að skýra þessar sérkennilegu aðgerðir nú.“

Þá segir Þorsteinn „harkalegar og ómálefnalegar aðgerðir“ Seðlabankans „hljóta að vera einsdæmi“. Hann skorar á Seðlabankann að leggja fram rökstuðning fyrir húsleitinni svo Samherji geti lagt sitt af mörkum til að upplýsa Seðlabankann um það sem hann vilji fá skýringar á og um leið freistað þess að takmarka tjón fyrirtækisins af aðgerðinni. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×