Innlent

Horft til bankakerfis Kanada

Steingrímur J. Sigfússon
Steingrímur J. Sigfússon
Steingrímur J. Sigfússon, efnahags- og viðskiptaráðherra, vill efla stjórnmálaleg og viðskiptaleg tengsl Íslands og Kanada. Hann er nú staddur í Kanada til að ræða efnahagsmál við þarlenda ráðamenn og fundaði meðal annars með seðlabankastjóra og fjármálaráðherra Kanada í gær. Hann sagði fundina hafa verið afar gagnlega og telur ljóst að það sé áhugavert fyrir Ísland að byggja upp aukin tengsl við Kanada og horfa til þess fjármálakerfis sem þar er við lýði þegar tekin verður ákvörðun um framtíðarskipan íslenska kerfisins. „Það er óumdeilt að Kanada sigldi tiltölulega lygnan sjó í gegnum fjármálakreppuna og þeirra bankakerfi komst vel frá henni. Þeir hafa rekið íhaldsamt bankakerfi með ströngum reglum og stífu eftirliti og það hefur skilað sér. Þeirra bankar voru minna áhættusæknir og þar af leiðandi traustari. Það var því mjög áhugavert að skoða þeirra regluverk.“

Mikil umræða hefur verið um mögulega upptöku Kanadadollars hérlendis. Steingrímur segir það alls ekki hafa verið dagskrárefni þeirra funda sem hann átti með kanadískum ráðamönnum. Umræðuna hafi þó borið á góma. „En stjórnvöld beggja landa vita hvernig staðan er. Þetta var því ekki rætt í neinni alvöru og þetta var alls ekki dagskrárefni. Við fórum þó yfir hvernig mál standa hjá okkur, til dæmis varðandi afnám gjaldeyrishafta. Þeir fylgjast vel með því.“-þsj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×