Innlent

Fleiri sektir verða vart niðurfelldar

Með lagabreytingu á árinu 2007 var tryggt að mál fyrirtækja er varða samkeppnisbrot verði einungis á forsjá Samkeppniseftirlitsins.
Fréttablaðið/Rósa
Með lagabreytingu á árinu 2007 var tryggt að mál fyrirtækja er varða samkeppnisbrot verði einungis á forsjá Samkeppniseftirlitsins. Fréttablaðið/Rósa
Búið er að girða fyrir að mál sem varða brot á samkeppnislögum hljóti sömu örlög og olíusamráðsmálið hlaut fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur á fimmtudag. Þar var felldur dómur um að íslenska ríkinu beri að endurgreiða olíufélögunum Esso (Ker hf.), Olís og Skeljungi sektargreiðslur vegna samkeppnisbrota upp á samtals 1,5 milljarða króna.

Fram kemur í dómnum að gerðar hafi verið breytingar á samkeppnislögum árið 2007. Meðal þeirra var að refsiábyrgð fyrirtækja var afnumin og þannig komið í veg fyrir að fyrirtæki væri til rannsóknar á tveimur stöðum. Mál fyrirtækja eru eftir lagabreytinguna eingöngu á forsjá Samkeppniseftirlitsins en mál einstaklinga hjá lögregluyfirvöldum. Þá má ekki nota gögn frá Samkeppniseftirlitinu í lögreglurannsókn.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur frá því á fimmtudag byggði á þeirri niðurstöðu að svo miklir annmarkar hefðu verið á meðferð samráðsmálsins á stjórnsýslustigi að fella verði úr gildi sektarúrskurðinn. Lykilatriðið í kröfu stefnefnda um að úrskurðinum yrði hnekkt var að óheimilt hefði verið að rannsaka málið samtímis af hálfu samkeppnisyfirvalda og lögreglu.

Taka má fram að Samkeppniseftirlitið hyggst áfrýja dómi Héraðsdóms til Hæstaréttar.- mþl




Fleiri fréttir

Sjá meira


×