Innlent

11 búnar í aðgerð

Samkvæmt upplýsingum frá landlæknisembættinu hafa 11 konur farið í aðgerð á Landspítalanum þar sem PIP-púðar voru fjarlægðir úr brjóstum þeirra. Á göngudeild hafa komið um 75 til 80 konur og búið er að bóka göngudeildartíma fram í apríl. Alls eru áætlaðar 32 aðgerðir í þessum mánuði.



Ekki er ljóst hversu margar af þeim, sem búnar eru að fara í aðgerð, voru með leka púða.



Níu konur sem komið hafa í ómskoðun hjá Krabbameinsfélagi Íslands eru með heilar PIP-fyllingar, en sílíkon í eitlum. Það skýrist af því að þær hafa fengið sér nýja púða á síðustu tíu árum, en þeir gömlu hafi lekið og sílíkonið ekki fjarlægt.



Samkvæmt nýjustu tölum frá Krabbameinsfélagi Íslands er 151 kona sem komið hefur í ómskoðun með lekar PIP-brjóstafyllingar, sem gerir hlutfallið 61 prósent. Alls hafa 253 konur komið í skoðun af þeim 393 sem fengu bréf frá ráðuneytinu á sínum tíma. 92 konur eru með heila púða og ein er án fyllinga. Sú kona er búin að láta fjarlægja úr sér leka púða en vildi láta kanna hvort sílíkonið hefði lekið í eitla.



Velferðarráðuneytið hefur óskað eftir því að Jens Kjartansson lýtalæknir sendi þeim konum bréf sem fengu hjá honum PIP-brjóstafyllingar fyrir árið 2000 og láti þær vita að púðarnir gætu mögulega verið gallaðir. Er þetta gert í ljósi þess að frönsk yfirvöld sendu nýverið frá sér yfirlýsingu um að ekki sé hægt að útiloka að PIP-púðar sem framleiddir voru fyrir árið 2000 séu gallaðir. Fram til þessa var einungis þeim konum sem fengu fyllingar á tímabilinu 2000 til 2011 boðið að láta fjarlægja þær. Ekki liggur fyrir hversu margar konur hafa fengið púðana frá árinu 1992, þegar framleiðsla hófst, en þær eru ekki taldar margar.- sv



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×