Lífið

Höfðu ekki efni á að auglýsa og notuðu því samfélagsmiðla

Arnar Knútsson er einn af þremur framleiðendum spennumyndarinnar Svartur á leik sem hefur slegið rækilega í gegn.
Arnar Knútsson er einn af þremur framleiðendum spennumyndarinnar Svartur á leik sem hefur slegið rækilega í gegn. Fréttablaðið/Valli

Framleiðendur spennumyndarinnar Svartur á leik, sem um 29 þúsund Íslendingar hafa séð á örskömmum tíma, notuðu mikið samfélagsmiðla á borð við Facebook til að auglýsa myndina.

„Við höfðum ekki efni á að auglýsa og þess vegna þurftum við að grípa til þessara ráða og það tókst," segir Arnar Knútsson hjá Filmus, en hann er einn af þremur framleiðendum myndarinnar. Hinir eru þeir Þórir Snær Sigurjónsson og Skúli Malmquist hjá Zik Zak.

„Við treystum svolítið á afspurnina og umtalið. Aðalmarkaðssetningin okkar var að nota þessa samfélagsmiðla til að fá fólk til að tala um myndina. Við hvöttum til umtals í trausti þess að það yrði frekar jákvætt og það hefur tekist mjög vel. Það vita allir að ef þú ert með góða vöru þá mun hún seljast."

Arnar er sannfærður um að slík markaðssetning sé komin til að vera. „Sérstaklega ef þú hefur mikla trú á vörunni og finnur rétta markhópinn. Ef ég sé mynd auglýsta í bíó getur það haft úrslitaáhrif hvort fólk sem ég þekki mælir með henni eða ekki."

Svartur á leik hefur fengið afar góða dóma gagnrýnenda og fékk meðal annars fjórar stjörnur í Fréttablaðinu, Fréttatímanum og í Morgunblaðinu. Myndin kostaði um 150 milljónir króna í framleiðslu og telur Arnar að mögulega hafi markaðssetningin sem þeir notuðu sparað nokkrar milljónir. Hann segir að munað hafi um það, enda tók myndin sjö ár í framleiðslu og oft á tíðum var erfitt að fjármagna hana. Á endanum hlaut Svartur á leik um 64 milljón króna styrk frá Kvikmyndasjóði Íslands, auk þess sem tveir fjárfestar, þeir Andri Sveinsson og Heiðar Guðjónsson sigldu verkefninu í mark á endasprettinum.

„Þeir höfðu trú á okkur og tóku sjensinn."

Þær 150 milljónir sem myndin kostaði segir Arnar vera meðalverð á íslenska mynd. „En þetta telst ódýrt á evrópskan mælikvarða, hvað þá alþjóðlegan. Kostaði Contraband ekki um fjögur þúsund milljónir?," spyr hann og á við nýjustu mynd Baltasars Kormáks.

Svartur á leik er fyrsta kvikmyndin í fullri lengd sem Arnar framleiðir. Hann er því nýliði í þessum bransa, rétt eins og leikstjórinn Óskar Þór Axelsson. „Ég er búinn að þekkja Óskar í tuttugu ár. Vonandi getum við unnið meira saman í framtíðinni ef við finnum hentug verkefni."

freyr@frettabladid.is


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.