Innlent

Garðyrkjustjóri fær árs skilorð

Samkrull Garðyrkjufélags Íslands og Orkuveitunnar var umtalsvert en óskilgreint. Fréttablaðið/gva
Samkrull Garðyrkjufélags Íslands og Orkuveitunnar var umtalsvert en óskilgreint. Fréttablaðið/gva
Fyrrverandi garðyrkjustjóri Orkuveitu Reykjavíkur, Kristinn H. Þorsteinsson, hefur verið fundinn sekur af ákæru sérstaks saksóknara og dæmdur í tólf mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir umboðssvik. Kristinn lét Orkuveituna greiða garðyrkjufélagi sem hann tengdist rúmar 25 milljónir króna á fimm ára tímabili sem runnu í vasa tveggja kvenna sem gegndu stöðu framkvæmdastjóra félagsins.

Hjá lögreglu bar Kristinn að greiðslurnar hefðu í raun verið styrkir, í ætt við þá sem afreksmenn hefðu fengið frá Orkuveitunni, og að þeim hefði verið ætlað að mæta kostnaði Garðyrkjufélags Íslands, þar sem hann var stjórnarformaður, við alls kyns aðstoð við Orkuveituna. Framburður vitna styður það að litið hafi verið á greiðslurnar sem styrki, þótt Kristinn hafi síðar breytt framburði sínum og sagt að skilgreind vinna lægi að baki hverri greiðslu.

Í dómnum er því slegið föstu að félagið hafi unnið ýmsa vinnu í þágu Orkuveitunnar „en jafnljóst er að sú vinna var stopul og óveruleg í samanburði við reikningsfjárhæðirnar“. Greiðslurnar hafi því verið styrkir sem hann hafi ekki haft heimild til að veita. Segir í niðurstöðunni að umtalsverður dráttur hafi orðið á málinu og því þyki rétt að skilorðsbinda refsinguna.- sh




Fleiri fréttir

Sjá meira


×