Lífið

Tók 11 daga að ná frönskunum góðum

Sigurður Karl hefur opnað veitingastaðinn Roadhouse sem sækir í gamla tímann.
Sigurður Karl hefur opnað veitingastaðinn Roadhouse sem sækir í gamla tímann. fréttablaðið/stefán
„Við erum að taka þennan mat og gera hann með hjartanu,“ segir Sigurður Karl Guðgeirsson, einn af eigendum veitingastaðarins Roadhouse, sem opnar við Snorrabraut í dag.

Sigurður ætlar að bjóða upp á bandarískan mat sem verður nánast allur útbúinn á staðnum. „Þessir staðir eru með allt þetta verksmiðjuframleidda dót,“ segir hann. „Við erum að fara aftur til upprunans. Við erum t.d að laga franskarnar sjálf. Það tók okkur ellefu daga að ná þeim góðum. Laukhringirnir eru búnir til á staðnum, hamborgararnir eru 140 grömm, vanalega eru þeir 120. Við erum að gera borgarana eins og í Ameríkunni. Við reykjum grísahnakka á staðnum, gerum okkar eigið hvítlauksmajones. Við keyptum reykofn á staðinn svo við getum reykt rifin sjálfir. Ég er mikill rifjamaður og mér hefur fundist vanta almennileg rif á Íslandi.“

Talandi um rif þá ætla Sigurður og félagar að reykja þau á þrennskonar hátt: Með eplavið, hikkoríuviður, kirsuberjavið.

Sigurður rekur einnig suZushii í Kringlunni og rekur Roadhouse ásamt Ástu, konunni sinni, og Gunnari Chan. Það tók sjö mánuði að gera upp húsnæðið sem hýsti áður sjoppuna Ríkið ásamt öðru, en pláss er fyrir allt að 112 manns í salnum. Dr. Gunni valdi tónlist staðarins sem er frá fimmta, sjötta og sjöunda áratugnum. „Við ætlum að fara í gamla tímann og gera þetta eins og í gamla daga,“ segir Sigurður. „Það er drifkrafturinn okkar.“- afb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×