Innlent

Bíða Alþingis og fresta innheimtu

Borgin vill að Alþingi geri ráðstafanir svo hesthús verði í flokki með íbúðarhúsum en ekki atvinnuhúsnæði þegar kemur að fasteignagjöldum.
Borgin vill að Alþingi geri ráðstafanir svo hesthús verði í flokki með íbúðarhúsum en ekki atvinnuhúsnæði þegar kemur að fasteignagjöldum. Fréttablaðið/Stefán
Kristbjörg Stephensen borgarlögmaður segir í minnisblaði til borgarráðs að borgin verði að lúta úrskurði yfirfasteignamatsnefndar um álagningu fasteignagjalda á hesthús. Samkvæmt úrskurðinum hafa hesthús í Reykjavík um árabil verið í röngum gjaldaflokki. Fasteignagjöldin hafa nú margfaldast.

Hestamenn segja hækkunina vega alvarlega að fjárhagslegum grundvelli þess að halda hesta í höfuðborginni. Kristbjörg segir í minnisblaðinu að borgaryfirvöld hafi þegar vakið athygli efnahags- og viðskiptanefndar á afleiðingum úrskurðarins. Sú skoðun hafi þar verið sett fram að eðlilegra væri að hesthús væru í þeim flokki sem borgin hefði talið þau vera. Í þeim flokki eru meðal annars íbúðarhús, sumarhús, jarðir og útihús á bújörðum.

Yfirfasteignamatsnefnd telur hins vegar hesthús í flokki með ýmsu atvinnuhúsnæði; eins og til dæmis iðnaðar-, skrifstofu- og verslunarhúsnæði, fiskeldismannvirkjum og veiðihúsum.

„Fyrir liggur að efnahags- og viðskiptanefnd mun taka málið til ítarlegrar skoðunar og á borgarlögmaður fund með nefndinni í næstu viku,“ segir í minnisblaði borgarlögmanns sem beint hefur því til fjármálaskrifstofu borgarinnar að fresta innheimtu fasteignagjalda á hesthús þar til efnahags- og viðskiptanefnd kemst að niðurstöðu.- gar




Fleiri fréttir

Sjá meira


×