Innlent

Ummæli Snorra í Betel til skoðunar

Snorri í Betel hefur kennt við skólann undanfarin ár og hefur sætt gagnrýni vegna skoðana sinna á samkynhneigð.
Snorri í Betel hefur kennt við skólann undanfarin ár og hefur sætt gagnrýni vegna skoðana sinna á samkynhneigð.
Akureyrarbær hefur nú ummæli Snorra Óskarssonar, sem oft er kenndur við trúarsöfnuðinn Betel, til skoðunar. Í pistli á bloggsíðu sinni sagði hann samkynhneigð vera synd. Snorri kennir unglingum í Brekkuskóla á Akureyri.

Akureyri vikublað greindi frá því í gær að foreldrar nemenda við skólann væru afar ósáttir við skrif Snorra og krefðust tafarlausrar afsagnar hans.

Eiríkur Björn Björgvinsson, bæjarstjóri á Akureyri, segir málið í skoðun. „Við erum að vanda okkur og vinnum þetta mál faglega,“ segir Eiríkur, en vill að öðru leyti ekki tjá sig um málið. Hvorki Gunnar Gíslason, fræðslustjóri Akureyrarbæjar, né Preben Jón Pétursson, formaður skólanefndar Akureyrarbæjar, vildu tjá sig um málið. Hvorki náðist í skólastjóra né aðstoðarskólastjóra Brekkuskóla í gær.

Ummæli Snorra sem vakið hafa þessi viðbrögð birtust á síðu hans 31. janúar: „Kjarninn í sjónarmiði evangelískra er sá að samkynhneigðin telst vera synd. Syndin erfir ekki Guðs ríkið og því óæskileg. Laun syndarinnar eru dauði og því grafalvarleg,“ skrifar Snorri.

Bloggfærslur hans um samkynhneigð komu síðast á borð menntamálanefndar Akureyrarbæjar fyrir um tveimur árum.- sv




Fleiri fréttir

Sjá meira


×