Innlent

Rannsaka færi á nýtingu sjávarorku

Rannsaka á hvernig hægt verði að nýta sjóinn til raforkuframleiðslu. Þær hugmyndir sem lengst eru komnar gera ráð fyrir hverflum neðarsjávar. fréttablaðið/vilhelm
Rannsaka á hvernig hægt verði að nýta sjóinn til raforkuframleiðslu. Þær hugmyndir sem lengst eru komnar gera ráð fyrir hverflum neðarsjávar. fréttablaðið/vilhelm
Fjármagn verður sett í rannsóknir á umfangi og nýtingarmöguleikum sjávarorku á Íslandi, verði þingsályktunartillaga sem lögð var fram á föstudag samþykkt. Tuttugu og einn þingmaður í öllum flokkum standa að tillögunni og verður því að teljast líklegt að hún verði samþykkt.

Í greinargerð með tillögunni segir að leiða megi getum að því að sjávarorka sé ein stærsta ónýtta orkuauðlind Íslands. Iðnaðarráðherra verði falið að byggja upp gagnagrunn um nýtingu sjávarorku, stuðla að tækniþróun á sviðinu og greina nýtingarkosti á þeim landsvæðum sem talin eru henta.

Skúli Helgason, fyrsti flutningsmaður tillögunnar, segir að vonir standi til að nýting sjávarorku gæti skilað heilmiklu í framtíðinni. Hann segir Íslendinga skammt á veg komna í málaflokknum og er ánægður með hve víðtækan stuðning hann fékk við tillöguna.

„Menn eru komnir á fleygiferð í löndunum í kringum okkur, Bretar lengst og Írar og Danir eru að kveikja á þessum möguleikum. Stjórnvöld víða um heim eru að móta sér stefnu um stuðning í málaflokknum,“ segir Skúli.

Hann segir málið ekki kalla á miklar deilur og vonast til að hægt sé að ljúka því með vorinu, en tillögunni var vísað til atvinnuveganefndar.

„Ef þingið sýnir vilja sinn í verki ætti að vera hægt að líta til þessa við fjárlagagerð næsta árs.“

kolbeinn@frettabladid.is


Tengdar fréttir

Hægt að tuttugufalda orkuna

Valdimar Össurarson rekur fyrirtækið Valorku sem hefur hannað samnefndan sjávarhverfil. Hann fékk í október fyrstu verðlaun í keppni Alþjóðasamtaka félaga hugvitsmanna, IIA, fyrir hverfilinn. Valorka stefnir að því að virkja hæga strauma sem eru í röstum og við annes.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×