Innlent

Einsdæmi að dómur sé ómerktur tvisvar

Haukur mætir ásamt verjanda sínum til aðalmeðferðar í héraði í annað sinn. Fréttablaðið/valli
Haukur mætir ásamt verjanda sínum til aðalmeðferðar í héraði í annað sinn. Fréttablaðið/valli
Einsdæmi er að dómsmáli sé vísað til meðferðar í héraði í þriðja sinn hér á landi, líkt og gerst hefur með mál Hauks Þórs Haraldssonar, fyrrverandi framkvæmdastjóri í Landsbankanum.

Haukur var ákærður fyrir að hafa dregið sér tæpar 120 milljónir af reikningi dótturfélags Landsbankans í miðju bankahruni. Sjálfur bar hann því við að hann hafi aðeins verið að forða fénu frá því að brenna upp í hruninu.

Haukur var sýknaður í fyrstu atrennu í héraðsdómi, en Hæstiréttur taldi að sönnunarmati þess dóms hefði verið áfátt, ómerkti hann og vísaði aftur heim í hérað. Í seinna skiptið var Haukur dæmdur í tveggja ára fangelsi.

Dómaranum láðist hins vegar að fjölskipa dóminn líkt og sakamálalög frá árinu 2008 kveða á um að skuli gera þegar Hæstiréttur ómerkir dóm vegna brogaðs sönnunarmats. Af þessum sökum var síðari héraðsdómnum einnig vísað heim í hérað fyrir helgi.

„Mér finnst ekki eðlilegt að leggja það á nokkurn mann að sitja undir þessu í þriðja sinn, enda hefur það víst aldrei áður komið fyrir í Íslandssögunni,“ segir Haukur. Hann sé vissulega feginn því að fangelsisdómur hans standi ekki en hafi þó bundið vonir við að málinu yrði vísað frá. Það sé nú á forræði annarra.

Fjórir saksóknarar hafa farið með málið frá því það var höfðað í nóvember 2009. Tuttugu vitni komu fyrir dóminn í fyrstu aðalmeðferðinni og sautján í þeirri síðari.

Gestur Jónsson, verjandi Hauks, segir með þessu brotið á rétti Hauks til réttlátrar málsmeðferðar. „Þetta er með alvarlegri hlutum sem ég hef upplifað í þessum bransa,“ segir Gestur. Hann bendir á að hefði málinu lokið í apríl 2010, þegar fyrsti dómurinn féll, væri Haukur nú laus allra mála jafnvel þótt hann hefði verið sakfelldur.

Gestur segist hafa bent dómaranum á að hann þyrfti að fjölskipa dóminn í seinna skiptið. Því hafi saksóknarinn mótmælt og dómarinn ekkert gert með ábendinguna.

Í greinargerð Gests til Hæstaréttar er vísað til rits Eiríks Tómassonar, nú hæstaréttardómara, um sakamálalögin þar sem segir að dómur í sama máli verði varla ómerktur nema einu sinni. Hann muni því reyna að fá málinu vísað frá. „Ég mun reyna allt til að koma í veg fyrir að maðurinn þurfi að þola þriðju málsmeðferðina,“ segir Gestur.

stigur@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×