Innlent

Dregið hefur úr vindstyrk í Reykjavík

Lagt er til á vefnum Betri Reykjavík að tré verði meira notuð til að skýla hjólastígum og gangstéttum. Fréttablaðið/GVA
Lagt er til á vefnum Betri Reykjavík að tré verði meira notuð til að skýla hjólastígum og gangstéttum. Fréttablaðið/GVA
+„Mælingar á vindhraða í borginni seinustu áratugi sýna að vindstyrkur hefur farið lækkandi og má ætla að gróður og ný byggð spili stóran þátt í þeirri þróun,“ segir í umsögn skipulagssviðs vegna ábendinga frá borgarbúum á vefnum Betri Reykjavík um að auka skjólmyndun með markvissari notkun trjágróðurs.

Á Betri Reykjavík er lagt til að meiri trjágróður aðskilji hjólastíga og gangstéttir frá umferðargötum til að draga úr mengun og mynda skjól og gefa skemmtilegra yfirbragð. Skipulagssviðið bendir á Græna trefilinn svokallaða sem sé samfellt skógræktarsvæði frá Esjurótum til Hafnarfjarðar.

„Á þessu svæði hefur undanfarna áratugi átt sér stað gríðarlega mikil skógrækt og er sá skógur nú að vaxa upp. Ekki er óraunhæft að ætla að skógurinn innan Græna trefilsins verði svipaður þeim sem nú er til dæmis í Heiðmörk. Þessi skógrækt mun hafa umtalsverð áhrif til skjólmyndunar á höfuðborgarsvæðinu,“ segir skipulagssviðið.

Þá kemur fram að við skipulag nýbyggingarhverfa í útjaðri borgarinnar hafi verið unnin sérstök úttekt á veðurfari og vindafari og skipulag byggðarinnar tekið mið af henni. Til standi að vinna hverfisskipulag fyrir öll hverfi. „Einn liður í því skipulagi snýr að því að skoða sérstaklega vinda- og veðurfar í viðkomandi hverfum með það að markmiði að stuðla að betri skjólmyndun.“- gar




Fleiri fréttir

Sjá meira


×