Innlent

Fjöldi lýtalækna til skoðunar hjá skatti

Bryndís Kristjánsdóttir, skattrannsóknarstjóri.
Bryndís Kristjánsdóttir, skattrannsóknarstjóri.
Skattrannsóknarstjóri ríkisins aflar nú gagna um lýtalækna á landinu eftir að ábendingar bárust frá velferðarráðuneytinu um að læknarnir höfðu framið skattsvik. Bryndís Kristjánsdóttir skattrannsóknarstjóri vonast til þess að ákvörðun um rannsókn á málinu verði tekin í næstu viku.

Í bréfi velferðarráðuneytisins til skattrannsóknarstjóra segir að nokkrar óformlegar ábendingar hafi borist í tengslum við PIP sílikonpúðana um að læknar sem bjóða upp á heilbrigðisþjónustu án greiðsluþátttöku Sjúkratrygginga Íslands gefi tekjur sínar sem þeir hafa vegna þeirrar vinnu ekki að fullu upp til skattyfirvalda. Ráðuneytið afhenti ábendingarnar til fjármálaráðuneytisins, sem áframsendi þær síðan til skattrannsóknarstjóra.

„Við höfum verið að afla gagna frá þeim tíma sem okkur barst ábendingin og sú vinna er í gangi, þannig að ákvörðun um hvort ráðist verði í rannsókn liggur ekki fyrir," segir Bryndís. „Verði sú ákvörðun tekin að rannsaka málið verður það vegna þess að það liggur staðfestur grunur fyrir um skattalagabrot."

Ekki fæst uppgefið hvaða gögnum skatturinn er að afla frá lýtalæknunum. Málið verður skoðað út frá skattaskilum þeirra lækna sem um ræðir í ábendingunni til ráðuneytisins. Bryndís segir fjölmiðla einnig spila mikilvægt hlutverk í upplýsingaöflun embættisins, þar sem ábendingar frá almenningi birtist oft og tíðum þar.

„Slíkt byggir undir," segir hún. „Stundum eiga sögurnar við rök að styðjast, stundum ekki. Hins vegar verður að fara varlega í svona málum til að það sé alveg klárt að við séum með eitthvað fast í höndunum ef út í rannsókn verður farið."

sunna@frettabladid.is

Nordicphotos/afp



Fleiri fréttir

Sjá meira


×