Innlent

Spáð brjáluðu veðri á sunnudag

Landsbjörg varar fólk við að vera á ferðinni á sunnudag vegna ofsaveðurs.
Landsbjörg varar fólk við að vera á ferðinni á sunnudag vegna ofsaveðurs. Fréttablaðið/Valli
Veðurstofan varar við stormi með rigningu og snjókomu víða um land á morgun. Spáð er allt að 23 metrum á sekúndu og mun ganga í norðaustan- og norðanátt með rigningu eða slyddu og síðan snjókomu um norðan- og austanvert landið. Úrkomulítið verður sunnanlands, þó mikið hvassviðri eða stormur.

Björn Sævar Einarsson, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, segir veðrið verða verst á öllu norðanverðu landinu.

„Fyrst verður þetta á Vestfjörðum, en færist norður yfir og verður hvassast á austanverðu landinu um kvöldið,“ segir hann. „Það verður sennilega þá komið víða tveggja til sex stiga frost.“

Að sögn Björns má alltaf búast við svona veðurfari í maí, þetta sé ekkert óvenjulegt.

Í tilkynningu frá Slysavarnafélaginu Landsbjörg er því beint til ferðafólks að hafa góðar gætur á veðurspám á morgun og mánudag. Fólk skuli skipuleggja ferðir sínar þannig að ekki skapist af þeim erfiðleikar eða hætta og best sé að halda kyrru fyrir á meðan veðrið gengur yfir. Ef nauðsynlegt þykir að leggja land undir fót skuli skilja eftir ferðaáætlunina á vefnum www.safetravel.is.

Í næstu viku fer veður svo kólnandi á landinu öllu og spáð er vægu frosti síðdegis á morgun á Norðurlandi en frostlausu sunnanlands. Þá dregur úr vindi á þriðjudag en spáð er frosti um mest allt land, en 0 til 5 stiga hita að deginum syðra. Áfram verður kalt í veðri út vikuna, kaldast fyrir norðan. - sv




Fleiri fréttir

Sjá meira


×