Innlent

Sífellt fleiri konur greinast með leghálskrabbamein

LVP skrifar
Kristján Sigurðsson læknir.
Kristján Sigurðsson læknir.
Sífellt fleiri konur greinast með leghálskrabbamein á alvarlegra stigi en áður. Þannig þurfa tvöfalt fleiri konur að fara í geisla- eða lyfjameðferð vegna krabbameinsins nú en fyrir áratug. Yfirlæknir segir ástæðuna þá að færri konur mæti reglulega í krabbameinsleit.

Talið er að með öflugri og skipulagðri krabbameinsleit megi koma í veg fyrir rúmlega 80% dauðsfalla af völdum leghálskrabbameins. Konur hér á landi eru hvattar til að mæta reglulega í slíka leit. Undanfarin ár hefur þó dregið nokkuð úr því að konur geri það. Kristján Sigurðsson yfirlæknir Leitarstöðvar Krabbameinsfélagsins segir þetta miður.

„Við höfum orðið vör við það að heildarfjöldi leghálskrabbameina sem hefur greinst á undanförnum árum hefur aukist lítilega. Það sem er alvarlegra í þessu tilfelli er það að tilfellum sem eru lengra gengin þeim hefur fjölgað á kostnað þeirra sem eru styttra gengin. Þetta þýðir það að þessar konur þurfa að fara í viðameiri meðferð með geislum og lyfjum í stað þess að unnt er að meðhöndla þær með einföldum keiluskurði sem hefði dugað ef þær hefðu greinst snemma," bætir Kristján við.

„Þetta tengist því að konur mæta mun verr en áður. Þær fylgja ekki okkar tilmælum um millibilsskoðanir og jafnvel sumar sem hafa greinst með forstigsbreytingar þær mæta ekki og fylgja ekki tilmælum okkar um eftirlit. Það er náttúrulega alvarlegur hlutur," sagði Kristján Sigurðsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×