Innlent

Yndislestur unglinga eykst

BBI skrifar
Mynd/Getty
Sífellt fleiri börn í 9. og 10. bekk í grunnskóla lesa sér til skemmtunar utan skólatíma. Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýju riti sem unnið var fyrir menntamálaráðuneytið, Ungt fólk 2012, sem birtist í dag.

Þar er borið saman hve hátt hlutfall nemenda í 9. og 10. bekk les aðrar bækur en skólabækur í 4 klukkustundir eða meira í hverri viku. Árið 2000 var hlutfallið 12% en hefur smátt og smátt aukist síðan og er 16% þetta árið.

Á sama tíma hríðlækkar hlutfall þeirra sem aldrei lesa bækur nema það séu skólabækur. Árið 2000 var hlutfallið 37% en er nú 27%.

Meðal barna í 8. bekk er annað uppi á teningnum. Fram kemur í riti menntamálaráðuneytisins að síðustu þrjú ár hafi hlutfall þeirra sem lesa aðrar bækur en skólabækur í 4 klukkustundir eða lengur á viku lækkað um 8%. Árið 2009 var hlutfallið 22% en er nú 16%. Yndislestur barna í 8. bekk virðist því minnka, öfugt við lestur barna í 9. og 10. bekk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×