Innlent

Ragnheiður Elín: Svona er pólitíkin og þetta er niðurstaða formannsins

Ragnheiður Elín Árnadóttir heldur ræðu.
Ragnheiður Elín Árnadóttir heldur ræðu.
„Svona er pólitíkin og þetta er niðurstaða formannsins, það þýðir þó ekki að ég sé ánægð með hana," segir Ragnheiður Elín Árnadóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi, en Illugi Gunnarsson var í dag kjörinn þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins eftir að Bjarni Benediktsson, formaður flokksins, lagði fram tillögu um að Illugi yrði nýr þingflokksformaður á þingflokksfundi í morgun. Sú tillaga var svo samþykkt með meirihluta þingflokksins.

Ragnheiður Elín segist auðvitað ekki vera ánægð með niðurstöðuna, hún hafi gegnt þessu embætti í tvö ár, eða frá því Illugi Gunnarsson fór í leyfi frá Alþingi á meðan málefni sjóðs 9 í Glitni var til rannsóknar.

Ragnheiður segist hafa haft mikla ánægju af starfi sínu sem þingflokksformaður og talið sig standa sig vel í því vandasama starfi.

„En nú er bara verkefnið að koma ríkisstjórninni frá, það kemur dagur eftir þennan dag," segir Ragnheiður sem bætir við að hún hafi metnað til þess að vera í framvarðasveit flokksins.

„Nú get ég einbeitt mér ennfrekar að því að tryggja Suðurkjördæmi sem stærstan sigur í næstu kosningum og þannig gert mitt besta til þess að koma þessari ömurlegu ríkisstjórn frá," segir Ragnheiður.

Spurð hvaða efnislegu rök hefðu verið lögð fram vegna málsins vísar Ragnheiður Elín á formann Sjálfstæðisflokksins.


Tengdar fréttir

Illugi nýr þingflokksformaður

Illugi Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hefur tekið við stöðu þingflokksformanns að nýju. Hann staðfestir þetta í samtali við Vísi. "Þetta var tillaga formanns sem var síðan rædd og síðan varð hún niðurstaðan,“ segir Illugi í samtali við Vísi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×