Innlent

Gervigras sem kostaði tugmilljónir er gallað

Gervigrasið í Reykjaneshöll bókstaflega spænist upp þegar það er þrifið og er á öruggri leið með að hverfa þaðan af gólfinu.
Gervigrasið í Reykjaneshöll bókstaflega spænist upp þegar það er þrifið og er á öruggri leið með að hverfa þaðan af gólfinu. Myndir/VSÓ
Skipta þarf út nýlegu gervigrasi í íþróttahöllunum í Reykjanesbæ og Grindavík. Grasið losnar af gólfmottunum. Framleiðandinn viðurkennir galla og verið er að semja um ný gólf. Þau kostuðu yfir 40 milljónir er þau voru keypt fyrir hrun.

„Ef þetta heldur svona áfram endar það náttúrlega með því að það verður lítið eftir af grasi,“ segir Stefán Bjarkason, framkvæmdastjóri íþrótta- og tómstundasviðs Reykjanesbæjar. Gervigrasið í Reykjaneshöll er á síðasta snúningi þrátt fyrir að vera aðeins fjögurra ára gamalt.

Gervigrasið í Reykjaneshöll var endurnýjað fyrir rúmum fjórum árum af þýsku fyrirtæki. Á sama tíma var sams konar gervigras sett í nýju fjölnotahöllina Hópið í Grindavík. Fljótlega kom í ljós að gólfin í báðum húsum eru gölluð, bæði krumpuð og reytt.

„Það er eins og grasið verði of þurrt og það brotnar,“ segir Róbert Ragnarsson, bæjarstjóri í Grindavík. „Framleiðandinn hefur viðurkennt að þetta sé galli og ætlar að skipta gólfinu út en vill fá greitt fyrir afnotin í þau þrjú ár sem við höfum notað gólfið. Við höfum sagt að það sé mál á milli framleiðandans og kaupandans á gólfinu – sem er ekki við heldur verktakinn sem við keyptum húsið af.“

Reykjanesbær keypti sitt gólf beint af þýska framleiðandanum og greiddi fyrir það 22 milljónir króna. Gólfið í Grindavík mun hafa kostað um 20 milljónir. Báðar þessar upphæðir eru frá því fyrir hrun þannig að tjónið er jafnvel tvöfalt hærra í krónum talið og því samtals yfir 80 milljónir króna.

„Þetta er algjört mánudagsgras,“ segir Stefán Bjarkason. „Festingarnar undir mottunni eru límdar og saumaðar og það er eins og límið hafi ekki verið nógu gott þannig að það fór fljótlega að bera á því að grasið raknaði bara upp og losnaði. Þannig að þegar við erum að þrífa koma heilu pokarnir upp af grasstráum. Þeir hafa komið og lagað þetta okkur að kostnaðarlausu en við erum ekki sátt við að það sé alltaf verið að stoppa upp í götin.“

Þýski framleiðandinn viðurkennir galla í báðum gólfunum. Á þeim er fimm ára ábyrgð. Til stendur að skipta þeim báðum út í sumar þegar aðilar hafa náð samkomulagi. Stefán segir að líklega muni Reykjanesbær bera eitthvert tjón.

„Þá er bara að taka því, það verður að skipta um gras,“ segir Stefán sem undirstrikar þó eins og Róbert í Grindavík að engin hætta hafi skapast vegna ástands grassins og það hafi ekki takmarkað notkun hallanna.

Í Reykjaneshöllinni er gólfið fjögur þúsund fermetrar. Þjóðverjarnir sjá ekki fyrir sér að taka ónýta grasið með sér heim. „Þeir vilja náttúrlega losna við förgunina og eru búnir að bjóða okkur grasið til notkunar úti en ég veit ekki hvort það mundi endast þar,“ segir Stefán Bjarkason.gar@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×