Innlent

Vill hitta fólk í eigin persónu og heyra þeirra sögu

Lítið hefur farið fyrir Hannesi Bjarnasyni forsetaframbjóðanda fram að þessu.

Hann segir það með ráðum gert, enda hefjist hans kosningabarátta ekki fyrr en í lok mánaðarins.

Hannes tilkynnti um framboð sitt fyrir rúmum mánuði. Hann er Skagfirðingur en búsettur í Noregi. Hann er kvæntur þriggja barna faðir, með háskólagráðu í landafræði.

Hannes er enn í Osló þar sem hann starfar sem breytinga og verkefnastjóri hjá ráðgjafafyrirtæki.

Hann er væntanlegur til landsins eftir um tvær vikur. Hann ætlar í hringferð um landið, sem hefst þann 24. apríl, og markar hún upphaf kosningabaráttunnar.

Þá er hann enn ekki byrjaður að safna undirskriftum stuðningsmanna.

„Ég ætla að safna undirskriftum í ferðinni," segir hann.

Sumir frambjóðendur hafa þegar ráðið sér almannatengslafulltrúa en Hannes stefnir á að vinna alfarið sjálfur að baráttunni, og vonar að það minnki ekki hans möguleika.

„Það getur vel verið að það geri það, það er mikilvægt að það komi fram að það er mitt val. Það er reyndar einn titill og það er kosningatjóri, hann Ragnar Bjarnason bróðir minn. Ég vil hitta fólk í eigin persónu, horfa í augun á þeim og heyra þeirra sögu."

Hann segist sannarlega bjóða sig fram af alvöru, þó lítið hafi heyrst í honum hingað til.

„Ég er í þessu því ég tel mig vera gott forsetaefni. Að fólk hafi ekki heyrt í mér er af yfirlögðu ráðu, ég ákveðið að halda aftur af mér þangað til ég fer í þessa hringferð," segir hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×