Innlent

Mótmælendur og lögregla takast á í Aþenu

Frá vettvangi í Aþenu.
Frá vettvangi í Aþenu. mynd/AP
Átök brutust út á milli mótmælenda og lögreglu í Aþenu í kvöld. Mótmælin hófust í kjölfar minningarathafnar sem haldin var fyrir utan þinghús borgarinnar.

Fjöldi fólks hafði safnast saman til að minnast aldraðs manns sem svipti sig lífi við þinghúsið fyrr í dag.

Í sjálfsmorðsbréfi mannsins kom fram að efnahagsástand landsins hafi verið hvatinn að gjörðum hans. Maðurinn var 77 ára gamall lyfjafræðingur.

Í bréfinu stóð að maðurinn vildi frekar deyja með sæmd en að lifa á götunni.

Um 1.500 manns voru við þinghúsið þegar upp úr sauð. Mótmælendur sökuðu lögreglumenn um að sýna manninum vanvirðingu með því að girða þinghúsið af.

Mótmælin standa enn yfir. Ekki er vitað hvort að nokkur hafi særst en eldsprengjum og steinum hefur verið kastað að lögreglumönnum. Þá hefur lögreglan notað táragas til að hrekja mótmælendur á brott.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×