Innlent

Engin stefna um virkjanir

Landsvirkjun hefur sótt um rannsóknarleyfi vegna hugmynda um virkjun í ánni. Stóru Laxá er ekki að finna í rammaáætlun um vernd og nýtingu náttúrusvæða.fréttablaðið/gva
Landsvirkjun hefur sótt um rannsóknarleyfi vegna hugmynda um virkjun í ánni. Stóru Laxá er ekki að finna í rammaáætlun um vernd og nýtingu náttúrusvæða.fréttablaðið/gva
Þar til Rammaáætlun hefur verið samþykkt er stefna ríkisstjórnar í virkjanamálum aðeins orðin ein. Ekkert er því til fyrirstöðu að sækja um rannsóknarleyfi á svæðum sem eru í verndarflokki.

Ekki náðist að afgreiða þingsályktunartillögu um rammaáætlun um vernd og nýtingu náttúrusvæða á síðasta þingi. Lagaumhverfi varðandi virkjanir er því óbreytt og stefnumótun ríkisstjórnarinnar í þeim málum hefur ekki áhrif á útgáfu rannsóknarleyfa.

Fjórar umsóknir um rannsóknarleyfi eru til umfjöllunar hjá Orkustofnun og þar af eru þrjár á svæðum sem sett eru í biðflokk í rammaáætlun.

Rannsóknarleyfi er í raun aðeins rammi utan um rannsóknir sem gera þarf og veitir ekki leyfi til að raska svæðum. Sækja þarf um slíkt sérstaklega. Komi slíkar umsóknir fram áður en rammaáætlun verður að lögum hefur stefnumótun áætlunarinnar engin áhrif á afgreiðslu umsóknanna. Orkufyrirtæki geta því sótt um rannsóknarleyfi á svæðum sem sett eru í verndarflokk í áætluninni.

„Já, já. Rammaáætlun hefur ekkert lagalegt gildi,“ segir Guðni A. Jóhannesson orkumálastjóri. „Við í stjórnsýslunni getum ekki farið eftir einhverjum frumvörpum eða tillögum sem liggja frammi.

Sérstaklega ekki með tilliti til þess að löggjafinn hefur haft þær undir höndum töluvert lengi án þess að samþykkja þær. Þá fer auðvitað að falla svolítið á þær.“

Eftir staðfestingu Alþingis á Árósarsáttmálanum gefur Orkustofnun ekki lengur út rannsóknarleyfi fyrir hönd ráðherra, heldur er útgáfan algjörlega á höndum stofnunarinnar.

Tvö fyrirtæki hafa sótt um rannsóknarleyfi vegna hugmynda um virkjun í Skjálfandafljóti, sem gert er ráð fyrir að fari í biðflokk. Verði bið á því að rammaáætlun verði samþykkt getur sú staða komið upp að rannsóknir séu vel á veg komnar og leyfi hafi fengist fyrir rannsóknum sem fela í sér jarðrask.

„Verði einhver tillaga samþykkt sem hefði það í för með sér að Skjálfandafljót lenti í biðflokki, þá breytist auðvitað lagaumhverfi rannsóknanna,“ segir Guðni.

kolbeinn@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×