Erlent

Kína býður fé í námuverkefni

Grænlendingar semja nú við stærsta ríkisbanka Kína um fjárframlög.
Grænlendingar semja nú við stærsta ríkisbanka Kína um fjárframlög.
Grænlenska landsstjórnin á nú í samningaviðræðum við stærsta ríkisbanka Kína um fjármögnun námuverkefnis fyrir utan Nuuk sem mun veita Kínverjum aðgang að eftirsóttum náttúruauðlindum.

Samtímis segir leyniþjónusta danska hersins í ársskýrslu sinni að mikill áhugi stórvelda eins og Bandaríkjanna, ESB, Rússlands og Kína á náttúruauðlindum Grænlands geti verið varasamur út frá öryggissjónarmiðum. Áhugi Kínverja á Grænlandi geti leitt til stórpólitískrar spennu.

Þetta kemur fram á fréttavef Politiken sem kveðst hafa upplýsingar um að bankinn China Development Bank, sem sagður er vera undir beinni stjórn kínversku stjórnarinnar og eiga að tryggja Kína aðgang að mikilvægum auðlindum um allan heim, sé reiðubúinn að leggja til 14 milljarða danskra króna í verkefnið.

Greint er frá því að breska fyrirtækið London Mining sjái um sjálft verkefnið. Það geti hins vegar ekki fjármagnað það og þess vegna komi China Development Bank inn í myndina.

Samkvæmt sjálfstjórnarlögunum frá 2009 ráða Grænlendingar yfir náttúruauðlindum sínum. Öryggis- og utanríkismál þeirra eru enn undir stjórn Dana. - ibs




Fleiri fréttir

Sjá meira


×