Innlent

Borgarráð beitir ekki börnum í innheimtu

Sóley Tómasdóttir borgarfulltrúi Vinstri grænna segir vanda við innheimtu gjalda vegna grunnþjónustu við börn vera „enn ein rökin“ fyrir því að gerð sé áætlun um að gera þjónustuna gjaldfrjálsa.Fréttablaðið/Vilhelm
Sóley Tómasdóttir borgarfulltrúi Vinstri grænna segir vanda við innheimtu gjalda vegna grunnþjónustu við börn vera „enn ein rökin“ fyrir því að gerð sé áætlun um að gera þjónustuna gjaldfrjálsa.Fréttablaðið/Vilhelm
„Telja verður eðlilegra að félagsleg úrræði verði bætt, svo sem með aukinni og sveigjanlegri aðstoð til handa efnalitlum foreldrum,“ segja borgarlögmaður og fjármálastjóri Reykjavíkurborgar sem mæla gegn breytingum á innheimtureglum svo börn verði ekki af þjónustu vegna vanskila.

Sóley Tómasdóttir, borgarfulltrúi úr Vinstri grænum lagði til að innheimtuaðgerðir borgarinnar yrðu endurskoðaðar að þessu leyti.

„Það á ekki að koma niður á börnum hvernig foreldrar þeirra forgangsraða eða eru staddir yfirhöfuð,“ segir Sóley sem fagnar því að borgarráð ákvað þrátt fyrir ráðleggingar fyrrnefndra embættismanna að fá tillögur frá velferðarsviði og skóla- og frístundasviði um breytta verkferla í þessum efnum.

Tillögu Sóleyjar var vísað til umsagnar hjá embættismönnunum. „Sú meginregla gildir við veitingu allrar þjónustu Reykjavíkurborgar að borgari missi þjónustu sé ekki greitt,“ undirstrikuðu þau Kristbjörg Stephensen borgarlögmaður og Birgir Björn Sigurjónsson fjármálastjóri.

„Það er rétt að það er ekki venjan að við séum að hygla einhverjum hópum umfram aðra. En þetta er ekki bara einhver hópur heldur börn og það er hefð fyrir því að við verndum börn,“ segir Sóley sem kveður borgarráð einhuga í að finna lausn á vandanum. Hún ítrekar að ekki sé verið að ræða um að hætta innheimtu eða fella niður skuldir.

„Á meðan við erum með gjaldskrár fyrir þessa þjónustu þá innheimtum við að sjálfsögðu það sem við höfum ákveðið og göngum á eftir á þessum skuldum – við beitum bara ekki börnum í þeim innheimtuaðgerðum,“ segir borgarfulltrúinn. gar@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×