Innlent

Hitt saltmálið: Fisksalt notað sem götusalt

Götusalt eða fisksalt? Það er nú stóra spurningin.
Götusalt eða fisksalt? Það er nú stóra spurningin.

Þegar bæjaryfirvöld í Grindavík gerðu athugasemdir við að fisksalti sem búið var að nota var sturtað í sjóinn þá voru góð ráð dýr samkvæmt tilkynningu frá iðnaðarráðuneytinu.

Eftir töluverð heilabrot fannst afbragðs gott ráð sem byggir á því að endurnota saltið til hálkuvarna og slá þannig tvær flugur í einu höggi; leysa upphaflega vandamálið varðandi förgun og auk heldur að skapa umtalsverðar tekjur í kassann.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í átaki iðnaðarráðuneytisins, Hækkandi sól, sem miðar að því að miðla jákvæðum fréttum.

Þar segir frá að fyrirtækið Haustak í Grindavík hreinsar yfir 3.000 tonn af fisksalti sem gegnt hefur hlutverki sínu og selur sem hálkuvarnarsalt og efni til rykbindingar. Tilraunir og þróun vegna þessarar endurvinnslu hafa staðið í tvö ár og smíðaðar hafa verið þar til gerðar vélar til að hreinsa alla fiskbita úr saltinu.

Ábatinn af þessu verkefni er margþættur. Auk þess að skapa atvinnu þá fylgir því umtalsverður gjaldeyrissparnaður að endurnýta fisksaltið sem annars hefði verið fargað. Þá fær Vegagerðin úrvals hálkuvarnarsalt og rykbindingarefni á hagstæðara verði en ella.

Haustak er í eigu útgerðarfélaganna Vísis og Þorbjarnar í Grindavík. Auk salthreinsunarinnar vinnur fyrirtækið m.a. að því að þurrka þorskhausa.

Endurnýting fisksaltsins er eitt af þeim 16 verkefnum sem fengu styrk úr vaxtarsamningi Suðurnesja í desember.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×