Innlent

Kerfishrun afsaki ekki meint brot á tilskipun

Hafnað Í andsvörum ESA við málsvörn Íslands fyrir EFTA-dómstólnum segir meðal annars að íslensk stjórnvöld hafi mismunað innistæðueigendum eftir löndum.
Hafnað Í andsvörum ESA við málsvörn Íslands fyrir EFTA-dómstólnum segir meðal annars að íslensk stjórnvöld hafi mismunað innistæðueigendum eftir löndum. Mynd/Efta-dómstóllinn
Tilskipun um innistæðutryggingar gildir þrátt fyrir kerfishrun. Þetta kemur fram í andsvörum Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) við málsvörn Íslands í Icesave-málinu.

Andsvörin voru birt á vef utanríkisráðuneytisins í gær, en þar kemur fram að afstaða ESA sé óbreytt. Ísland hafi brotið gegn tilskipuninni og eigi að bera kostnaðinn af endurgreiðslu lágmarksinnistæðutryggingar til innistæðueigenda í Hollandi og Bretlandi.

Í andsvörunum segir að ekki sé hægt að ætlast til þess að innistæðutryggingakerfi geti staðið undir heilu bankakerfi, en komi til hruns þurfi samt að vera hægt að bregðast við.

„Það getur einfaldlega ekki hafa verið markmið ESB-löggjafarinnar þegar tilskipunin var innleidd að vernd á innistæðum verði minni eftir því sem áhætta innistæðueigenda aukist,“ segir þar.

Þá er áréttað að innistæðueigendum hafi verið mismunað. Falskan tón slái við í málflutningi Íslands um að allir hafi setið við sama borð þar sem enginn hafi fengið greitt út tryggingasjóði.

Innistæðueigendur á Íslandi hafi notið séraðgerða. Annars vegar þegar innistæður þeirra voru færðar í nýju bankana og aðgangur að þeim hélst óskertur. Í annan stað voru innistæður á Íslandi tryggðar að fullu.

Undirbúningur að gagnsvörum íslenskra stjórnvalda er þegar hafinn og miðað er við að þau verði lögð fram innan tilskilins frests, 11. maí næstkomandi, að undangengnu samráði við utanríkismálanefnd. - þj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×