Innlent

Bæjarfulltrúa hótað líkamsmeiðingum

Myndin er frá Garði og tengist fréttinni ekki beint
Myndin er frá Garði og tengist fréttinni ekki beint Samsett mynd
„Ég og einnig maðurinn minn höfum fengið símhringingar þar sem honum hefur verið sagt að árásir á mig og mína fjölskyldu séu hafnar og muni fólk ekki hætta fyrr en tekist hafi að flæma okkur í burtu," segir Kolfinna S. Magnúsdóttir, bæjarfulltrúi í Garði, í samtali við Víkurfréttir.

Meirihlutinn í bænum féll um helgina eftir að Kolfinna, sem er bæjarfulltrúi sjálfstæðismanna, ákvað að mynda nýjan meirihluta með L lista og N lista. Í samtali við Víkurfréttir segir Kolfinna að sér hafi verið hótað líkamsmeiðingum eftir að þetta var ljót.

Hún segir að sér hafi borist stöðugar símhringingar þar sem hótað er að gengið verði í skrokk á henni ásamt því að allt sem hægt sé að nota til að brjóta hana niður andlega verði notað gegn henni. Þá hefur einnig verið barið á hús hennar að utan.

„Maður kemst heldur betur að því hvernig grimmd fólks getur gert það sjálft að smásálum sem hafa í hótunum og berja húsið allt að utan," segir hún.

Kolfinna ætlar að leggja fram kæru hjá lögreglunni á Suðurnesjum vegna hótananna.

Fréttastofa náði ekki tali af Kolfinnu í dag.

Fréttavefur Víkurfrétta




Fleiri fréttir

Sjá meira


×