Innlent

Fjöldi einstæðra foreldra í vanda

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Hátt í fimmtungur einstæðra foreldra var í alvarlegum vanskilum um síðustu mánaðarmót. Einstæðir foreldrar eru um helmingur þeirra sem þiggja mataraðstoð frá Hjálparstarfi kirkjunnar.

Rúmlega tuttugu og sex þúsund manns voru í alvarlegum vanskilum í byrjun mánaðarins. Þetta sýna upplýsingar sem fyrirtækið Creditinfo hefur tekið saman. Meirihlutinn er karlmenn og flestir frá 30 til 50 ára.

Þá sést einnig að hlutfall einstæðra foreldra sem voru í alvarlegum vanskilum er hærra en annarra. Þannig var um 18% einstæðra feðra í alvarlegum vanskilum og 17% einstæðra mæðra.

Vilborg Oddsdóttir félagsráðgjafi hjá Hjálparstarfi kirkjunnar segir marga einstæða foreldra vera í erfiðri stöðu. Einstæðum foreldrum sem leitað hafi eftir aðstoð hjá þeim hafi fjölgað undanfarin ár. Í dag séu yfir 50% þeirra sem leita eftir aðstoð hjá Hjálparstarfi kirkjunnar einstæðir foreldrar.

Vilborg segir marga foreldra hafa lítið á milli handanna eftir að hafa greitt reikningana sína og ekki geta lifað af því. Þannig eigi fjölskyldur oft ekki nema 50 til 60 þúsund þegar búið er að borga öll föst útgjöld eins og húsnæði og leikskólagjöld.

Þá segir hún marga búna að nýta sér öll úrræði eins og að taka út séreignarsparnað. „Það eru mjög margir einstæðir foreldrar í erfiðri stöðu og það er alveg greinilegt að þetta er sá hópur sem er tekjulægstur og það þarf einhver úrræði sem beinast að þessum hóp".




Fleiri fréttir

Sjá meira


×