Innlent

Tveir framhaldsskólar með enga íþróttakennara

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Engir íþróttakennarar eru starfandi við tvo framhaldsskóla á landinu en skólarnir senda nemendurna þess í stað líkamsræktarstöðvar. Prófessor í íþrótta- og heilsufræði segir þetta skelfilega þróun.

Ný könnun sem gerð var á íþróttakennslu í framhaldsskólum sýnir að í tveimur þeirra er enginn íþróttakennari starfandi. Það er í Menntaskólanum í Kópavogi og í Framhaldsskólanum í Austur-Skaftafellssýslu. Stjórnendur þar hafa tjáð menntamálaráðuneytinu að þetta sé vegna aðstöðuleysis og að samið hafi verið við líkamsræktarstöðvar um íþróttakennslu fyrir nemendurna. Sigurbjörn Árni Arngrímsson, prófessor í íþrótta- og heilsufræði við Háskóla Íslands, er mjög ósáttur við þessa þróun. Honum þyki hún skelfileg en metnaður skólanna eigi að vera með öfluga íþróttakennslu.

Sigurbjörn segir kennslu í líkamsræktarstöðvum ekki koma í stað íþróttakennslu í skólunum sjálfum, þó þar séu oft starfandi íþróttakennarar. Þannig geti skólarnir allt eins fengið verkfræðistofur til að sjá um stærðfræðikennslu ef þeir vilji fara þessa leið.

Þá segir Sigurbjörn nýja rannsókn sýna að aðeins þriðjungur framhaldsskólanema stundar ráðlagða hreyfingu. Þrek ungmennanna sé enn gott en holdafarið ekki. Til að sporna gegn þessu þurfi að efla íþróttakennslu í skólunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×