Innlent

Telur að fleiri samskiptasíður hafi afhent bandarískum yfirvöldum gögn

Hugrún Halldórsdóttir skrifar
Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Hreyfingarinnar.
Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Hreyfingarinnar.
Birgitta Jónsdóttir þingmaður segir víst að bandarísk stjórnvöld hafi fengið afhent gögn um hana af fleiri vefsíðum en Twitter. Innanríkisráðuneytið hefur nú rúman mánuð til að skila rökstuðningi fyrir gagnaleynd.

Alríkisdómstóll í Bandaríkjunum úrskurðaði í nóvember að samskiptasíðan Twitter yrði að veita dómsmálaráðuneytinu þar í landi aðgang að persónuupplýsingum Birgittu en sjálf segir hún málið mun víðtækara en haldið hefur verið fram.

„Það hefur semsagt komið fram í gögnum sem lögfræðingar mínir fengu aðgengi að, að það væru þrjú önnur fyrirtæki sem hefði verið gert að afhenta gögn um mig," segir Birgitta.

Hún telur að fyrirtækin séu samskiptarisarnir Google, Facebook og Skype en vill þó ekkert fullyrða.

„Við vorum að leggja inn í gegnum lögfræðinga mína kröfu um að öllum öðrum upplýsingum sem hafa verið haldið leyndum, meðal annars þessum upplýsingum um þessi fyrirtæki, að leyndi af því verði aflétt. og jafnframt að fá heimild til þess að fara með málið fyrir dóm munnlega, taka það munnlega fyrir," segir Birgitta.

Þegar dómari úrskurðaði í Twitter-málinu svokallaða í nóvember gaf hann bandaríska innanríkisráðuneytinu hálfs árs frest til að koma með rökstuðning fyrir gagnaleynd.

„Þannig að þau gera ráð fyrir því að í maí, nánar tiltekið 11.maí þá munu bandarísk yfirvöld þurfa að koma með rökin eða að allri leynd af gögnunum sem varða mitt mál verði aflétt," segir Birgitta.

„Og þá er dálítið mikilvægt í mínum huga að íslensk yfirvöld þrýsti á allavega leyndinni í kringum málið mitt verði aflétt af bandarískum yfirvöldum," segir Birgitta að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×