Innlent

Tökum á Game of Thrones lýkur á morgun

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Frá tökum af þáttaröð númer 2.
Frá tökum af þáttaröð númer 2. Mynd/ Vilhelm.
Tökum á bandarísku sjónvarpsþáttunum Game of Thrones við Mývant lýkur á morgun en um þrjú hundruð manns hafa komið að þeim.

Fjölmennt kvikmyndatökulið hefur frá því um miðjan mánuðinn unnið að gerð þáttanna hér á landi og fara síðustu tökurnar fram í dag og á morgun. Snorri Þórisson er eigandi framleiðslufyrirtæksins Pegasus sem kemur að gerð þáttanna. Hann segir allt hafa gengið að óskum.

„Ætli þetta sé ekki sjöundi dagurinn í upptökum og náttúrulega undirbúningur búinn að vera frá mánaðarmótum. Við höfum verið hérna í kringum Mývatnið við Kálfaströnd þónokkuð mikið, í landi Kálfastrandar, erum núna upp hjá fyrir ofan Kröflu. Þetta hefur allt gengið að óskum. Veðrið hefur leikið við okkur og allt gengið bara vel," segir Snorri.

Snorri segir að sem fyrr komi margir að verkefninu.

„Það hafa verið tæplega 300 þegar mest hefur verið ætli við séum ekki 250 í dag," segir Snorri.

Þetta er í annað sinn sem að kvikmyndatökulið þáttanna kemur til landsins til að taka upp en fyrir ári fóru fram tökur við Vatnajökul og Vík í Mýrdal. Sem fyrr leikur íslensk náttúra stórt hlutverk en í ár var byggð nokkuð umfangsmikil leikmynd eða heilt þrop. Nokkur vinna fer því í að taka leikmyndina niður þegar að tökum lýkur.

„Við klárum núna á morgun mjög sennilega og meirihlutinn af upptökuliðinu fer héðan á sunnudag. Leikmyndadeild verður hér eftir í tiltekt og að taka niður leikmynd og þetta klárast um mánaðarmótin," segir Snorri Þórisson.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×