Erlent

Hélt framhjá með ævisöguritaranum

David Petreus.
David Petreus.
Forstjóri öflugustu leyniþjónustu veraldar, CIA, hefur sagt upp störfum eftir að bandaríska alríkislögreglan komst að því að hann hélt framhjá konu sinni.

David Petreus þótti gríðarlega öflugur sem hershöfðingi í Íraksstríðinu og í átökunum í Afganistan. Barack Obama skipaði hann forstjóra bandarísku leyniþjónustunnar, CIA, árið 2011, og var Petreus nokkuð óumdeildur á þeim vettvangi enda gríðarlega reynslumikill í sínu starfi og hafði mótað aðferðarfræði bandaríska hersins í átökunum í Mið-Austurlöndum.

Það var þó fyrir skömmu sem FBI, eða bandaríska alríkislögreglan, komst að því að Petreus væri að halda framhjá konu sinni til 34 ára. Alríkislögreglan hafði fylgst með póstinum hans vegna gruns um að rithöfundurinn Paula Broadwell væri að fylgjast með því sem þar fór fram. Sú fylgdist náið með Petreus þar sem hún skrifaði ævisögu hershöfðingjans. Bandaríska alríkislögreglan komst að því að Broadwell, sem sjálf er gift, var ekki að hnýsast í pósti forstjórans, né eingöngu að rita ævisöguna, heldur áttu þau í ástarsambandi.

Petreus sendi tilkynningu á fjölmiðla í gær, þremur dögum eftir forsetakosningarnar, þar sem hann baðst lausnar undan störfum sínum vegna framhjáhaldsins. Í sömu yfirlýsingu biðst hann afsökunar á dómgreindarleysi sínu. Hann segir slíka hegðun ekki hæfa forstjóra öflugustu leyniþjónustu verldar.

Það er Michael Morell sem tekur við stöðu forstjórans en sá hefur unnið í áratugi innan hersins og leyniþjónustunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×