Erlent

Ungir sænskir karlmenn stunda mun meira vændi en stúlkurnar

Töluverð umræða hefur sprottið upp í Svíþjóð eftir að rannsókn sýndi að ungir sænskir karlmenn stunda mun meira vændi en stúlkur á sama aldri.

Rannsókn þessi var unnin á vegum hins opinbera í Svíþjóð og hún sýndi að 2,1% karlmanna á aldrinum 16 til 25 ára höfðu stundað vændi. Hlutfallið hjá stúlkunum á sama aldursbili var hinsvegar aðeins 0,8%.

Hér er um að ræða að veita kynlífsgreiða og fá hann borgaðan í einu eða öðru formi, oft áfengi á bar eða nýtt símakort auk reiðufjár.

Marie Nyman sem stjórnaði rannsókninni segir að hinir ungu karlar selji sig bæði til karla og kvenna en stúlkurnar að nær öllu leyti til karla. Hún segist hinsvegar ekki hafa neina skýringu á þeim mikla mun sem er á körlum og konum á þessu aldursskeiði þegar kemur að vændi.

Það sem ekki hefur síður vakið athygli í Svíþjóð er að 21,5% ungra Svía í fyrrgreindum aldurshóp segir að þeir sjái ekkert athugavert við að stunda vændi.

Kaup á vændi eru bönnuð í Svíþjóð eins og á Íslandi og í Noregi og raunar eru allar líkur á að svipuð lög verði samþykkt í Danmörku á þessum vetri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×