Erlent

Verðandi eiginmaður Svíaprinsessu geymir auð sinn á Cayman eyjum

Sænskir fjölmiðlar hafa komist að því að Chris O Neill verðandi eiginmaður Madeleine Svíaprinsessu geymi mest af auði sínum í skattaparadísum eins og Cayman eyjum.

Chris O Neill er sterkefnaður en hann er meðeigandi og einn af forstjórum fjármálafyrirtækisins Noster Capital. Fyrirtækið er með skrifstofur í bæði London og New York en er skráð í Delaware í Bandaríkjunum sem er þekktasta skattaparadísin þar í landi.

Raunar er Noster Capital ekki með skrifstofu í Delaware heldur póstkassa. Af öðrum sem eiga slíka póstkassa í Delaware má nefna rússneska vopnasalann Viktor Bout, betur þekktan sem Kaupmann dauðans. Hann afplánar nú 25 ára fangelsisdóm fyrir hryðjuverk.

Höfuðstöðvar Noster Capital eru á Cayman eyjum. Þar er raunar til staðar skrifstofa í Georgetown. Hinsvegar er ekkert starfsfólk á þeirri skrifstofu. Á sama heimilisfangi eru 19.000 önnur alþjóðleg fyrirtæki skráð með skrifstofu.

Sænska konungsfjölskyldan hefur ekkert viljað tjá sig um þetta mál hingað til. Sjálf hefur Madeleine prinsessa það orð á sér meðal Svía að vera ofdekruð, löt og skemmtanafíkin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×