Innlent

500 myndbönd send inn í Jólastjörnuna

Dómnefnd Jólastjörnunnar á ærið verkefni fyrir höndum næstu daga. Skráningu í Jólastjörnuna lauk hér á Vísi í gær og bárust hvorki meira né minna en 500 myndbönd í keppnina. Þetta eru enn fleiri þátttakendur en í fyrra en þá bárust um 400 myndbönd.

Um er að ræða ungt fólk, 16 ára og yngri, sem fær það tækifæri til að koma í sérstakar prufur sem haldnar verða á Nordica þann 9. nóvember næstkomandi. Einungis 10 af þessum hundruðum söngvara verða boðaðir í þessar prufur.

Einn mun svo standa uppi sem sigurvegari og kemur fram á stærsta sviði landsins með aragrúa af íslenskum stórstjörnum laugardaginn 15. desember í Höllinni á stórtónleikunum Jólagestir Björgvins. Hinn 14 ára gamli Aron Hannes Emilsson bar á sigur úr býtum í fyrra og kom fram á Jólagestunum þann 3. desember í Hölinni.

Að auki verður í ár gefin út ný hljómplata fyrir þessi jól með þeim 10 keppendum sem komast í úrslit. Það er því til mikils að vinna fyrir þá sem komast áfram.

Dómnefndin mun nú leggjast undir feld og fara gaumgæfilega yfir öll myndböndin og freista þess að komast að sameiginlegri niðurstöðu um þá 10 sem komast í prufurnar. Það er ljóst að dómnefndin á ærið verkefni fyrir höndum því í fyrra þurfti mikla yfirlegu og umræður í ljósi þess hve frambærilegir margir þátttakendurnir voru. Engin ástæða er til annars en að ætla að svipað verði uppi á teningnum í ár.

Í dómnefndinni eru engir aukvisar en hana skipa sjálfur Björgvin Halldórsson, leikstjórinn Gunnar Helgason, poppdívan Þórunn Antónía og stórsöngkonan Diddú.

Vísir og Ísland í dag á Stöð 2 mun fylgjast grannt með framvindunni, dómnefndinni að störfum og prufunum og afhjúpa sigurvegarann þegar að því kemur.

Hér fyrir ofan má sjá Jólastjörnuna í Íslandi í dag í fyrra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×