Innlent

Allt nötrar og skelfur á Norðurlandi

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Á Siglufirði féll þessi stytta um koll og myndin færðist til.
Á Siglufirði féll þessi stytta um koll og myndin færðist til.
Töluverði skjálftavirkni hefur verið á Norðurlandi í kvöld. Nokkrir skjállftanna hafa mælst um 4 og jafnvel allt upp í 5 að stærð. Skjálftarnir hafa meðal annars fundist á Akureyri, Húsavík og á Siglufirði hafa bækur og munir hrunið úr hillum.

Heimildarmaður Vísis sem staddur er á Siglufirði segir að húsið sem hann var í hafi skolfið og nötrað í stærstu skjálftunum.

Á korti Veðurstofunnar sést hvar skjálftarnir eiga upptök sín.
Skjálftarnir virðast eiga upptök sín norðan af Siglufirði. Þeir stærstu fundust núna rétt eftir klukkan eitt og varð fólki á Siglufirði verulega bilt við þá. Skjálftavirknin virðist hafa hafist fyrr í dag, samkvæmt sjálfvirkum skjálftamælingum Veðurstofunnar og ágerst þegar leið á kvöldið. Tugir skjálfta hafa mælst.

Í tilkynningu sem almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra segir að Veðurstofa Íslands telji að þessi skjáftavirkni sé framhald á hrinu sem byrjaði í september. Jarðskjálftarnir hafi fundist víða á Norðurlandi, allt frá Sauðárkróki, Siglufirði, Ólafsfirði, Dalvík, Akureyri, á Húsavík og nágrenni.

Jarðskjálftar eru nokkuð algengir á þessu svæði og árin 1996 og 2004 voru svipaðar jarðskjálftahrinur í gangi. Erfitt er að segja fyrir hve lengi þessi skjálftahrina muni standa yfir né er hægt að útiloka fleiri skjálfta af stærðinni 4 eða yfir þá stærð.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.