Innlent

Þór Saari segist hafa verið skilinn útundan

Jóhanna Margrét Gísladóttir skrifar
Þór Saari þingmaður Hreyfingarinnar.
Þór Saari þingmaður Hreyfingarinnar.
Þór Saari þingmaður Hreyfingarinnar segir formann atvinnuveganefndar Alþingis hafa skilið sig útundan í störfum trúnaðarmannahóps um fiskveiðifrumvarpið með því að boða hann ekki á fundi hópsins í ágúst. Formaður nefndarinnar segir Þór Saari hafa gefið í skyn að hann vildi ekki mæta á fundina.

Þór Saari sendi í morgun bréf til forseta og forsætisnefndar Alþingis þar sem hann gagnrýnir formann Atvinnuveganefndar, Kristján Möller, fyrir að hafa ekki boðað fulltrúa Hreyfingarinnar á fundi undirnefndar Atvinnuveganefndar um fiskveiðistjórnunarfrumvarp ríkistjórnarinnar sem fram fóru í ágúst. Nefndin samanstefndur af einum fulltrúa hvers þingflokks úr atvinnuvegnanefnd.

„Ég hef greinilega verið skilinn útundan með skipulögðum hætti að hálfu þeirra fjögurra sem skipa þennan hóp núna og það er kannski ekkert skrítið því þeir fjórir eru allir hallir undir útgerðina í þessu máli og hafa ekki viljað hafa einhvern þarna inni sem myndi gagnrýna þeirra vinnubrögð," segir Þór.

Kristján Möller formaður nefndarinnar segir nefndarmenn hafa talið að Þór ætlaði ekki að taka þátt í frekari störfum hópsins eftir bókun hans á fundi atvinnuveganefndar í júní, þar sem hann gagnrýnir störf hópsins.

„Þetta var svo afdráttarlaust sem kom fram í þessu bréfi og það kom okkur á óvart og það var samdóma álit okkar allra að hann væri að segja sig frá þessum hóp, bréfið er alveg afdráttarlaust," segir Kristján.

Þór segir þetta ekki hafa verið tilgang bókunarinnar. „Það kemur hvergi fram að ég hafi ekki viljað taka þátt í starfi hópsins, maður mætir á fundi í þessum hóp hvort sem að það er vit í honum eða ekki, því þarna er vrið að véla um mikilvægustu hagsmuni þjóðarinnar," segir hann.

Þór leggur til að Kristjáni Möller verði vikið frá störfum og að starf undirhópsins verði leyst upp. Kristján segir Þór hins vegar vera velkominn á frekari fundi nefndarinnar hafi hann áhuga á því. „Ef að hann er að lýsa því yfir að hann vilji taka þátt í störfum hópsins, þá er það sjálfsagt mál að gera það, en hann verður þá að láta okkur vita að það sé stefubreyting frá þessu bréfi sem hann sendi okkur," segir hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×