Innlent

Vill gera Ólympíuleikum fatlaðra hærra undir höfði

Karen Kjartansdóttir skrifar
Ríkisstjórnin fjallaði á fundi í dag um það hvernig hægt væri að heiðra þá íþróttamenn sem koma fram á Ólympíumóti fatlaðra. Velferðarráðherra vill gera Ólympíuviðburðum fatlaðra og ófatlaðra jafnhátt undir höfði.

Í gegnum tíðina hafa Íslendingar átt frænka íþróttagarpa á þessum mótum svo sem sundkonurnar Kristínu Rós Hákonardóttur, Sigrúnu Huld Hrafnsdóttur svo einhverjar íþróttahetjur séu nefndar en stjarnan í ár er nýkrýndur ólympíumeistari í sundi Jón Margeir Sverrisson.

Ríkisstjónin fjallaði á fundi í dag hvernig hægt væri að heiðra fatlaða íþróttamenn fyrir afrek sín með fullnægjandi hætti. Taka ætti sömu stefni og Bretar hafa gert í þessum efnum og gera ólympíumóti fatlaðra jafn hátt undir höfði og Ólympíuleikum ófatlaðra.

Hefur það ekki verið gert hingað til? spyr fréttakona.

„Þetta er löng saga. Það hafa unnist gríðarlega mörg verðlaun á Ólympíuleikum fatlaðra gegnum árin," segir Guðbjartur Hannesson, velferðarráðherra. „En Bretar stigu þarna skref sem mér finnst að við eigum að fylgja mjög skýrt. Þeir settu sömu nefnd í að fjalla um báða Ólympíuleikana. Þeir voru með gríðarlega mikla aðsókn og lögðu mikla áherslu á þessa Ólympíuleika."

„Þeir ítrekuðu að þarna væri fólk sem væri kannski að vinna meiri sigra en margir aðrir," bætir Guðbjartur við. „Því að til viðbótar við að keppa í íþróttum þarf þetta fólk að yfirvinna sína fötlun. Og ég held að þetta sé lína sem við eigum að taka mjög skýrt upp. Að þetta séu Ólympíuleikar sem við viljum gera jafnhátt undir höfði og öðrum."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×