Innlent

Dæmd fyrir að stela tíu milljónum frá KPMG

Tæplega fimmtug kona var dæmd í átta mánaða skilorðsbundið fangelsi í Héraðsdómi Reykjaness í gær fyrir fjárdrátt en hún dró sér tæplega tíu milljónir króna frá endurskoðendafyrirtækinu KPMG. Konan starfaði þar sem launafulltrúi en hún millifærði fé fyrirtækisins af bankareikningum þess í BYR Sparisjóði, sem konan hafði prókúru á í starfi sínu í þágu félagsins. Fjárdrátturinn stóð yfir frá árinu 2008 til 2010.

Konan játaði brotið skýlaust en í niðurstöðu Héraðsdóms Reykjaness segir að til refsiþyngingar horfir að konan dró sér mikla fjármuni yfir langt tímabil. Að öllu þessu virtu þykir refsing hennar hæfilega ákveðin fangelsi í átta mánuði. Í ljósi þess að hún hefur ekki áður komist í kast við lögin þótti réttast að fresta refsingu og fellur hún niður að þremur árum liðnum haldi konan almennt skilorð.

Þess má geta að KPMG hefur um árabil tekið að sér rannsóknir á mörgum málum sem snerta misferli, fjársvik og undanskot eigna auk þess að byggja upp frá grunni áætlanir fyrir fyrirtæki um hvernig þau geti afstýrt, uppgötvað og brugðist við misferli og fjársvikum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×